Körfubolti

Jokic stigahæstur í öruggum sigri Serba | Giannis dró vagninn fyrir Grikki

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Nikola Jokic og félagar hans í serbneska landsliðinu í körfubolta unnu góðan sigur á EM í kvöld.
Nikola Jokic og félagar hans í serbneska landsliðinu í körfubolta unnu góðan sigur á EM í kvöld. Srdjan Stevanovic/Getty Images

Sex leikir fóru fram á Evrópumótinu í körfubolta í kvöld, en leikið var í C- og D-riðlum. Nikola Jokic var stigahæsti maður Serbíu er liðið vann 24 stiga sigur gegn Hollendingum og Giannis Antetokounmpo skilaði tvöfaldri tvennu í fjögurra stiga sigri Grikkja gegn Króötum.

Serbar settu tóninn snemma gegn Hollendingum og voru með tíu stiga forskot að loknum fyrsta leikhluta. Liðið jók lítillega við forskoti fyrir hálfleik, en staðan var 51-38 þegar gengið var til búningsherbergja.

Jafnræði ríkti með liðunum lengst af eftir hálfleikshléið, en Serber sigldu fram úr í fjórða leikhluta og unnu að lokum 24 stiga sigur, 100-76.

Nikola Jokic var stigahæstur Serba með 19 stig, en hann tók einnig sex fráköst og gaf fjórar stoðsendingar.

Þá unnu Grikkir nauman fjögurra stiga sigur gegn Króötum, 89-85, þrátt fyrir að hafa mikla yfirburði í fyrri hálfleik.

Gríska liðið fór inn í hálfleikinn með 16 stiga forskot, en króatíska liðið gafst kki upp og minnkaði muninn niður í átta stig áður en komið var að lokaleikhlutanum. Króatar náðu mest að minnka muninn niður í tvö stig þegar lítið var eftir af leiknum, en Grikkir reyndust sterkari á lokametrunum og unnu að lokum fjögurra stiga sigur, 89-85.

Giannis Antatokounmpo átti góðan leik fyrir Grikki í kvöld, en hann skoraði 27 stig, tók 11 fráköst og gaf sex stoðsendingar.

Úrslit kvöldsins

Ísrael 89-87 Finnland

Úkraína 90-61 Bretland

Króatía 85-89 Grikkland

Pólland 99-84 Tékkland

Ítalía 83-62 Eistland

Serbía 100-76 Holland




Fleiri fréttir

Sjá meira


×