Handbolti

Misjafnt gengi Íslendingaliðana í upphafi dönsku deildarinnar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ágúst Elí Björgvinsson átti fínan leik í marki Ribe-Esbjerg í dag.
Ágúst Elí Björgvinsson átti fínan leik í marki Ribe-Esbjerg í dag. EPA-EFE/Petr Josek

Fjórir leikir fóru fram í fyrstu umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í handbolta í dag og voru Íslendingar í eldlínunni í þremur þeirra. Íslendingalið Ribe-Esbjerg og Fredericia unnu sigra í sínum leikjum, en leikmenn Lemvig þurftu að sætta sig við tap.

Þeir Ágúst Elí Björgvinsson, Arnar Birkir Hálfdánarson og Elvar Ásgeirsson voru allir í leikmannahópi Ribe-Esbjerg er liðið vann góðan þriggja marka sigur gegn Mors-Thy, 30-27.

Liðið náði mest fimm marka forskoti í leiknum og staðan var 17-14 í hálfleik. Þrátt fyrir það að gestirnir í Mors-Thy hafi náð forystunni um stund í síðari hálfleik snéru heimamenn leiknum sér í hag á ný og unnu að lokum þriggja marka sigur, 30-27.

Elvar Ásgeirsson skoraði þrjú mörk í liði Ribe-Esbjerg og Ágúst Elí Björgvinsson varði tíu skot í markinu, en Arnar Birkir Hálfdánarson komst ekki á blað.

Þá vann Fredericia nauman tveggja marka sigur gegn Skanderborg. en Guðmundur Guðmundsson er þjálfari liðsins og Einar Þorsteinn Ólafsson leikmaður þess. Leikurinn var jafn og spennandi frá upphafi til enda, en að lokum höfðu heimamenn í Fredericia betur, 24-22.

Að lokmu máttu Daníel Freyr Andrésson og félagar hans í Lemvig þola þriggja marka tap gegn SønderjyskE, 33-30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×