Golf

Kristján og Guðrún sigruðu Korpubikarinn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Guðrún Brá Björgvinsdóttir bar höfuð og herðar yfir aðra keppendur í Korpubikarnum í golfi.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir bar höfuð og herðar yfir aðra keppendur í Korpubikarnum í golfi. Getty/Charles McQuillan

Kristján Þór Einarsson úr Golfklúbbi Mosfellsbæjar og Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Golfklúbbnum Keili stóðu uppi sem sigurvegarar í Korpubikarnum í golfi, lókamótinu á stigamótaröð Golfsambands Íslands, GSÍ.

Kristján og Guðrún höfðu afgerandi forystu fyrir lokadaginn, en Kristján hafði fjögurra högga forystu á Axel Bóasson úr Golfklúbbnum Keili og Guðrún hafði átta högga forystu á Perlu Sól Sigurbrandsdóttur úr Golfklúbbi Reykjavíkur.

Kristján lék hringinn í dag á 66 höggum, eða sex höggum undir pari. Hann kláraði hringina þrjá því samtals á 198 höggum, 18 höggum undir pari vallarins. Axel Bóasson hafnaði í öðru sæti á 16 höggum undir pari, en þrír kylfingar komu þar á eftir jafnir í þriðja sæti á átta höggum undir pari.

Í kvennaflokki bar Guðrún Brá höfuð og herðar yfir andstæðinga sína, en hún lék hringinn í dag á 69 höggum. Samtals lék hún hringina þrjá á 204 höggum, eða 12 höggum undir pari vallarins. Perla Sól hafnaði í öðru sæti á samtals 216 höggum, eða á parinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×