Umfjöllun,viðtöl og myndir: HK-Breiða­blik 0-1| Breiðablik marði sigur í Kópavogsslagnum og mætir Víkingi í undanúrslitum

Andri Már Eggertsson skrifar
Breiðablik vann Kópavogsslaginn og mætir Víkingi í undanúrslitum Mjólkurbikarsins.
Breiðablik vann Kópavogsslaginn og mætir Víkingi í undanúrslitum Mjólkurbikarsins. Vísir/Hulda Margrét

8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins lauk með Kópavogsslag í Kórnum. Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Omar Sowe Breiðabliki yfir á 55. mínútu. Fleiri urðu mörkin ekki og Breiðablik mætir Víkingi Reykjavík í undanúrslitum á Kópavogsvelli. 

Kórinn bergmálaði þegar HK og Breiðablik mættust í síðasta leik átta liða úrslitum Mjólkurbikarsins. Það var mikil stemning hjá stuðningsmannasveitum beggja liða eins og við mátti búast þegar um Kópavogsslag er að ræða.

Leifur Andri Leifsson, fyrirliði HK, í leik kvöldsinsVísir/Hulda Margrét

Eftir tæplega fimm mínútna leik fóru Blikarnir að færa sig ofar á völlinn og var um það bil tuttugu mínútna kafli þar sem gestirnir spiluðu á vallarhelmingi HK en náðu ekki að brjóta skipulagða vörn HK.

Sölvi Snær Guðbjargarson fékk dauðafæri eftir hálftíma leik þar sem Blikar fengu skyndisókn. Gísli Eyjólfsson hælaði boltann á Sölva sem skaut í fjærhornið en Arnar Freyr Ólafsson, markmaður HK, varði meistaralega frá honum.

Fimm mínútum síðar fékk Gísli Eyjólfsson dauðafæri. Damir skallaði hornspyrnu Breiðabliks inn í teiginn þar sem boltinn skoppaði til Gísla sem var nánast inni í markinu en Gísli virtist vera í stígvélum þegar hann tók skotið sem endaði framhjá.

Dauðafærið sem Gísli misnotaðiVísir/Hulda Margrét
Gísli svekktur með að hafa ekki tekist að skoraVísir/Hulda Margrét

Undir lok fyrri hálfleiks fékk HK dauðafæri til að komast yfir. Örvar Eggertsson tók langt innkast sem Teitur skallaði í slána og Oliver Haurits fylgdi því eftir með skalla á markið en Elfar Freyr bjargaði á línu. Það var því markalaust í nokkuð fjörugum fyrri hálfleik.

Eftir markalausan fyrri hálfleik braut Omar Sowe ísinn á 55. mínútu. Jason Daði kom boltanum fyrir markið þar sem Omar Sowe vann baráttuna við Teit Magnússon og skoraði fyrsta mark leiksins.

Eftir markið datt leikurinn niður. Það kom meiri harka í leikinn og var nóg að gera hjá Erlendi Eiríkssyni, dómara. Báðir þjálfarar fóru að skipta mönnum inn á enda hefur verið leikjaálag á báðum liðum.

Sölvi Snær Guðbjargarson og Óskar Hrafn Þorvaldsson í leik kvöldsinsVísir/Hulda Margrét

Það héldu margir stuðningsmenn HK að Örvar Eggertsson hefði jafnað leikinn á 93. mínútu þegar hann skallaði fyrirgjöf í markið en flaggið fór á loft og var Örvar réttilega dæmdur rangstæður. 

Breiðablik vann á endanum 0-1 sigur og mætir Víkingi Reykjavík í undanúrslitum Mjólkurbikarsins á Kópavogsvelli.

Viktor Örn Margeirsson og Höskuldur Gunnlaugsson fögnuðu sigrinum í leikslokVísir/Hulda Margrét

Af hverju vann Breiðablik?

Eins og við mátti búast hélt Breiðablik meira í boltann og skapaði sér þó nokkur færi. Eina mark leiksins kom þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Omar Sowe hafði þá betur í baráttunni við Teit Magnússon og var það á endanum eina sem skildi liðin að.

Hverjir stóðu upp úr?

Það var mikill kraftur í Degi Dan Þórhallssyni. Dagur var mikið í boltanum og skapaði töluvert af færum fyrir liðsfélaga sína. 

Leifur Andri Leifsson var eins og klettur í vörn HK. Heimamenn þurftu að verjast mikið sérstaklega í fyrri hálfleik og þar stóð Leifur vaktina vel. 

Arnar Freyr Ólafsson, markmaður HK, átti frábæra markvörslu í fyrri hálfleik þegar hann kom í veg fyrir að Sölvi Snær Guðbjargarson myndi skora.

Hvað gekk illa?

Gísli Eyjólfsson fór afar illa með dauðafæri í fyrri hálfleik. Eftir hornspyrnu Breiðabliks skallaði Damir boltann í átt að Gísla sem var eins nálægt markinu og hann gat orðið en virtist vera í stígvélum þegar hann tók skotið sem fór framhjá. 

Hvað gerist næst?

Breiðablik fer í Úlfarsárdal næsta mánudag og mætir Fram klukkan 19:15.

HK mætir Fylki næsta þriðjudag í toppslag Lengjudeildarinnar klukkan 19:15.

Dagur Dan: Vissum að það yrði ekkert gefið í Kórnum

Dagur Dan að laga skóna í leik kvöldsinsVísir/Hulda Margrét

Dagur Dan Þórhallsson, leikmaður Breiðabliks, var ánægður með að hafa tryggt sér farseðilinn í undanúrslit Mjólkurbikarsins. 

„Þetta var hörkuleikur, við vissum að það væri ekkert gefið í Kórnum þrátt fyrir að HK sé í deild fyrir neðan. Allir leikir milli þessara liða sem ég hef séð hafa verið frábærir og auðvitað bjóst maður við hörkuleik,“ sagði Dagur Dan og hélt áfram.

„Við fundum ekki netið í fyrri hálfleik. Það getur verið erfitt að brjóta skipulögð lið sem leggjast aftarlega á völlinn. Eftir að við skoruðum setti HK pressu á okkur sem mér fannst vera óþarfi en fínt að klára leikinn.“

Degi Dan fannst Breiðablik ekki nógu beittir á síðasta þriðjungi til að bæta við öðru marki.

„Mér fannst við ekki nógu beittir á síðasta þriðjungi til að bæta við marki. Við fengum nokkrar góðar stöður á vellinum en nýttum þær ekki vel og við þurfum að fínpússa það fyrir næsta leik á mánudaginn,“ sagði Dagur Dan að lokum og bætti við að það er ekkert betra en að spila leiki á þriggja daga fresti. 

 Myndir:

Andri Rafn umkringdur HK-ingumVísir/Hulda Margrét
Arnþór Ari Atlason í leik kvöldsinsVísir/Hulda Margrét
Jason Daði að leika á varnarmenn HKVísir/Hulda Margrét
Það var fjör hjá Kopacabana í kvöldVísir/Hulda Margrét
Viktor Elmar Gautason og Leifur Andri í baráttuVísir/Hulda Margrét

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira