Handbolti

Handboltastjarna þjálfar lið sem keppir í tölvuleik

Sindri Sverrisson skrifar
Lasse Svan vann til fjölda verðlauna með danska landsliðinu á sínum glæsta ferli. Hér er hann tolleraður eftir bronsverðlaunin á EM í janúar.
Lasse Svan vann til fjölda verðlauna með danska landsliðinu á sínum glæsta ferli. Hér er hann tolleraður eftir bronsverðlaunin á EM í janúar. Getty

Hvað gerir sigursæll handknattleiksmaður þegar skórnir eru komnir upp í hillu? Í tilviki Danans Lasse Svan er næsta verkefni að þjálfa lið Heroic sem keppir í Counter-Strike tölvuleiknum.

Svan hefur samhliða afar farsælum ferli sem handknattleiksmaður starfað sem árangursþjálfari síðustu átta ár og það er hlutverkið sem hann hefur nú fengið hjá liði Heroic.

Þessi frábæri hornamaður sem unnið hefur allt sem hægt er að vinna í handboltanum; Ólympíuleikana, HM, EM og Meistaradeild Evrópu, segist hlakka mikið til að vinna með strákunum í Heroic og hann ætlar að hjálpa þeim að ná fram sínu besta svo að þeir vinni til fjölda verðlauna.

„Þetta er eitthvað sem að ég hef alltaf lagt mig fram við; að fólkið í kringum mig hafi það gott. Svo það lá beinast við að þetta yrði brautin sem ég fetaði eftir handboltann. Og ég er mjög spenntur fyrir þessu. Mér finnst það mjög gaman að vinna með, þróa og hjálpa öðru fólki,“ sagði Svan við TV 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×