Skoðun

Jólin verða dýrari en í fyrra

Björn Berg Gunnarsson skrifar

Það er svo lágskýjað að það tekur hreinlega á að vera beinn í baki. En það eru þó góðar 9 gráður úti, rennandi blautt og sumarfríið búið og óþarfi að láta sér leiðast þegar við höfum yfir nógu að kvarta.

Ef sumarið ætlar að fjara út með þessum hætti má það eiga sig mín vegna og undirbúningur næsta hápunkts ársins, jólanna, hefjast. „Andlega er ég tilbúinn í jólin, en fjárhagslega er ég ekki tilbúinn í jólin“ sagði einhver við gott tilefni, sennilega þegar þau voru handan við hornið, en vakti í leiðinni athygli á nokkru mikilvægu. Á jólunum eigum við nefnilega að slappa af, lesa og drekka kakó þar til við þurfum að opna glugga. Það er þó erfitt að njóta þeirra almennilega ef peningarnir eru stanslaust potandi í okkur, spyrjandi hvernig og hvenær við ætlum að borga fyrir þetta allt saman.

Dýr desember

Það ætti ekki að koma á óvart að við Íslendingar verjum að jafnaði talsvert hærri fjárhæðum í mat, drykki og gjafainnkaup í desember en aðra mánuði ársins. Hin hefðbundnu heimilisfjármál, sem hjá mörgum dansa rétt á núllinu við hver mánaðamót, ganga þá oft ekki upp og jólin eru tekin að láni með tilheyrandi óþægindum og áhættu næstu mánuðina. Þetta er ekkert nýtt. Þó svo jólunum hafi verið fagnað hér á landi í ríflega þúsund ár og líklega enn lengur að heiðnum sið koma þau alltaf jafn mikið á óvart.

Jólaskraut í miðborg Reykjavíkur.Vísir/Vilhelm

Auðvitað er á mörgum heimilum nægt svigrúm fyrir óvænt útgjöld. En hjá flestum hefur mánuður sem þessi áhrif, jafnvel mikil áhrif, á fjárhaginn. Rétt eins og óvæntur gestur sem býður sjálfum sér í heimsókn yfir jólin. Rétt eins og Eddie frændi í Christmas Vacation. En þessi jólin ætlar Eddie að taka með sér alla fjölskylduna, sem við skulum kalla verðbólgu.

Verðhækkanir milli ára

Ofan á reikninginn í desember mun bætast verðbólga, sú verðhækkun sem orðið hefur á hinum ýmsu vörum frá síðustu jólum. Ársverðbólga mælist nú rétt undir 10% hér á landi og hún mun án vafa auka kostnaðinn sem fylgja mun óbreyttum jólum. Við því eru bara tvö svör; að reyna að draga úr kostnaði við jólin í ár eða vera duglegri að spara það sem eftir lifir árs.

Frá jólunum 2021 hefur svínakjöt hækkað um 10% í verði og brúnaðar kartöflur um tæp 4%. Malt og appelsín er 5% dýrara. Ætlar þú að baka? Hveiti er 12% dýrara en þegar þú hnoðaðir síðast í lagtertu, smjörið 7%, egg 6% og mjólk 5% dýrari. Það sem meira er, það eru enn nokkrir mánuðir í jólin og líkur á enn frekari verðhækkunum, nema kannski á hveitinu sem hefur til allrar hamingju lækkað talsvert í verði erlendis að undanförnu.

Svona er staðan því miður. Jólin eru alltaf dýr og verða enn dýrari í ár. Það er skárra að vita af því núna en þegar jólahúllumhæið stendur sem hæst og ekki úr vegi að nota þetta átakanlega niðurdrepandi veður til undirbúnings svo tryggja megi sem notalegust jól.

Höfundur er deildarstjóri Greiningar og fræðslu Íslandsbanka



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×