Körfubolti

Brittney Griner dæmd í níu ára fangelsi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brittney Griner í fangelsinu í Rússlandi.
Brittney Griner í fangelsinu í Rússlandi. Getty/Pavel Pavlov

Körfuboltakonan Brittney Griner var í dag dæmd í níu ára fangelsi í Rússlandi og sektuð að auki um eina milljón rúbla.

Ein milljón rúbla er sama og rúmar 2,2 milljónir íslenskar króna.

Dómarinn sagðist hafa tekið það greina að Griner hafði að hluta til viðurkennt sök og að hún hafi séð eftir þessu.

Griner var hins vegar dæmd fyrir eiturlyfjasmygl sem dómarinn sagði að hún hefði framið vísvitandi.

Hún var handtekin með minna en eitt gramm af hassolíu í farangri sínum á leið um Moskvu flugvöll 17. febrúar síðastliðinn. Hasolíuna notaði hún í rafrettu sína.

Griner var þá á leiðinni til Rússlands til að spila körfubolta en margar af stærstu körfuboltakonum heims hafa spilað í landinu til að auka tekjur sínar.

Griner sagði hafa óvart gert þessi mistök af því að hún var hafi verið að flýta sér að pakka. Hún baðst afsökunar og baðst vægðar þegar hún kom fyrir dóminn í dag og að hún hafi ekki ætlað að brjóta rússnesk lög.

Mál Griner varð fljótt að pólísku máli eftir innrás Rússa í Úkraínu og viðbrögð Bandaríkjanna við henni. Bandarísk stjórnvöld hafa reynt að vinna að lausn Griner en það hefur ekki borið árangur.

Griner er ein besta körfuboltakona heims, 206 sentímetra miðherji sem hefur bæði orðið WNBA-meistari sem og verið stigahæsti leikmaður WNBA deildarinnar í tvígang. Hún hefur líka átta sinnum varið flest skot á tímabili og þrisvar sinnum verið kosin í úrvalslið ársins.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.