Innherji

Stoðir og hópur fjárfesta í viðræðum um kaup á Algalíf fyrir yfir 15 milljarða

Hörður Ægisson skrifar
Orri Björnsson, forstjóri Algalífs, en velta félagsins jókst um nærri 20 prósent í fyrra og var rúmlega 1.500 milljónir króna.
Orri Björnsson, forstjóri Algalífs, en velta félagsins jókst um nærri 20 prósent í fyrra og var rúmlega 1.500 milljónir króna.

Fjárfestingafélagið Stoðir og framtakssjóður í rekstri Alfa Framtaks fara fyrir hópi innlendra fjárfesta sem eru langt komnir í viðræðum um kaup á íslenska líftæknifyrirtækinu Algalíf á Reykjanesi. Vonir standa til að viðskiptin geti klárast síðla sumars eða næstkomandi haust.

Á þessari stundu liggur ekkert fyrir um endanlegt kaupverð á fyrirtækinu, sem er í dag í eigu norska félagsins HeTe Invest, en áætlanir ráðgera er að það geti verið á bilinu um 15 til 20 milljarðar króna, samkvæmt heimildum Innherja, gangi viðskiptin eftir.

Auk Stoða og nýs framtakssjóðs í stýringu Alfa Framtaks, sem er 15 milljarðar að stærð og heitir Umbreyting II, þá er gert ráð fyrir því lífeyrissjóðir og fleiri íslenskir fjárfestar muni koma að kaupunum.

Skrifað var undir viljayfirlýsingu og helstu skilmála vegna mögulegra kaupa fjárfestanna á Algalíf síðastliðið vor, samkvæmt upplýsingum Innherja. Það er fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka sem hefur verið ráðgjafi í tengslum söluferlið á fyrirtækinu.

Algalíf ræktar örþörunga og vinnur úr þeim fæðubótaefnið astaxanthín. Velta fyrirtækisins, sem er eitt hið stærsta í Evrópu á sviði örþörungaframleiðslu, jókst um fimmtung á árinu 2021 og var rúmlega 1,5 milljarður króna. Þá minnkaði tap á rekstrinum um meira en 300 milljónir á milli ára og var um 140 milljónir en sé litið til EBITDA félagsins þá var hún jákvæð upp á meira en 200 milljónir króna.

Fyrr í þessum mánuði tilkynnti Algalíf að félagið hefði undirritað nýjan 15 ára samning um kaup á raforku af HS Orku sem tryggir því næga hreina orku vegna yfirstandandi stækkunar verksmiðjunnar að Ásbrú í Reykjanesbæ en sú fjárfesting nemur um fjórum milljörðum króna. 

Með þeirri stækkun mun framleiðslugetan þrefaldast og starfsmannafjöldi tvöfaldast úr 40 í 80 þegar framkvæmdum lýkur 2023. Áætlað er að árleg velta fari þá yfir fimm milljarða króna og með „tryggum aðgangi að raforku er ekkert því til fyrirstöðu að fyrirtækið verði það stærsta á heimsvísu í framleiðslu á sjálfbæru náttúrulegu astaxanthíni,“ að því er sagði í tilkynningu frá félaginu vegna hins nýja raforkusamnings.

Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða.

Orri Björnsson, forstjóri Algalífs, greindi frá því í viðtali við ViðskiptaMoggann í byrjun þessa árs að núverandi eigendur félagsins væru opnir fyrir því að selja félagið til Íslendinga. Þá sagðist hann áætla að verksmiðja fyrirtækisins myndi vera um 25 milljarða króna virði þegar stækkun hennar klárast á árinu 2023. Reiknað er með því að umfang rekstarins muni vaxa mikið á komandi árum samhliða aukinni afkastagetu og ört stækkandi markaði fyrir astaxanthín.

Stoðir, sem er að miklum meirihluta í eigu hóps einkafjárfesta og stýrt af Jóni Sigurðssyni, eru eitt umsvifamesta fjárfestingafélag landsins og hagnaðist um 20 milljarða í fyrra, einkum vegna hækkunar á gengi bréfa í skráðum félögum. Stoðir eru stærsti eigandi Símans auk þess að vera á meðal umsvifamestu hluthafa Arion banka, Kviku og Play.

Félagið seldi hins vegar um þriðjung bréfa sinna í Kviku banka í nóvember á liðnu ári fyrir samanlagt um 3,5 milljarða króna, eins og Innherji upplýsti um á þeim tíma. Að undanförnu hafa Stoðir verið að ráðast í fjárfestingar í nýjum atvinnugreinum með kaupum á þriðjungshlut fiskeldisfyrirtækinu Landeldi og eins kaupum á samtals um sjö prósenta hlut í Bláa lóninu á seinni helmingi síðasta árs.

Alfa Framtak, sem er stýrt af Gunnari Páli Tryggvasyni, kláraði fjármögnun á sjóðnum Umbreyting II í apríl síðastliðnum en hann mun fjárfesta í óskráðum félögum. Sjóðurinn er sem fyrr segir 15 milljarðar króna að stærð – 40 prósent af því fjármagni kemur frá öðrum en lífeyrissjóðum – og er horft til þess að fjárfesta í fimm til níu fyrirtækjum. Fyrir hefur Alfa rekið sjóðinn Umbreyting frá árinu 2018 sem er sjö milljarðar króna að stærð.

Bókfært eigið fé Algalífs var tæplega tveir milljarðar króna í árslok 2021. Vaxtaberandi skuldir fyrirtækisins eru um 1,5 milljarður króna en til viðbótar er Algalíf með hluthafalán frá norsku móðurfélaginu sínu sem nemur rúmlega 1,3 milljarði króna.


Tengdar fréttir

Stoðir bæta við sig í Bláa lóninu fyrir nærri 700 milljónir

Fjárfestingafélagið Stoðir, sem kom fyrst inn í hluthafahóp Bláa lónsins í lok ágústmánaðar í fyrra með kaupum á 6,2 prósenta hlut Helga Magnússonar, þáverandi stjórnarformanni félagsins, bætti nokkuð við eignarhlut sinn í ferðaþjónustufyrirtækinu síðar á árinu og fer núna með samtals 7,3 prósenta eignarhlut. Nokkrir minni hluthafar í Bláa lóninu seldu bréf sín í félaginu á síðustu mánuðum ársins 2021.

Hundrað daga plan leggur grunn að umbreytingum Alfa Framtaks

Fjárfestingar Alfa Framtaks, sem nýlega gekk frá fjármögnun á 15 milljarða króna framtakssjóði, í fjölskyldufyrirtækjum hafa miðað að því að gera fyrirtækin óháð eigendum þeirra svo að þeir verði með seljanlega eign í höndunum og ekki bundnir við reksturinn til elífðarnóns. Gunnar Páll Tryggvason, framkvæmdastjóri segir að eftir hverja fjárfestingu sé ráðist í hundrað daga plan sem leggur grunninn að ábatasömu eignarhaldi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×