Innherji

Hundrað daga plan leggur grunn að umbreytingum Alfa Framtaks

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Gunnar býr fyrir ríflega 20 ára reynslu af framtaksfjárfestingum og fyrirtækjaráðgjöf, og hefur stýrt slíkum verkefnum í 10 löndum.
Gunnar býr fyrir ríflega 20 ára reynslu af framtaksfjárfestingum og fyrirtækjaráðgjöf, og hefur stýrt slíkum verkefnum í 10 löndum. Ljósmynd/Hulda Margrét

Fjárfestingar Alfa Framtaks, sem nýlega gekk frá fjármögnun á 15 milljarða króna framtakssjóði, í fjölskyldufyrirtækjum hafa miðað að því að gera fyrirtækin óháð eigendum þeirra svo að þeir verði með seljanlega eign í höndunum og ekki bundnir við reksturinn til elífðarnóns. Gunnar Páll Tryggvason, framkvæmdastjóri segir að eftir hverja fjárfestingu sé ráðist í hundrað daga plan sem leggur grunninn að ábatasömu eignarhaldi.

Hugmyndin á bak við framtakssjóði, sem fjárfesta í óskráðum fyrirtækjum, á sér meira en 40 ára sögu en sjóðir af þessu tagi litu þó ekki dagsins ljós á Íslandi fyrr en eftir fjármálahrunið. Fjöldi fjárfestingafélaga hafði lagt niður starfsemi og bankarnir voru með mikið af óskráðum eignum á efnahagsreikningum sínum.

„Framan af snerust verkefni framtakssjóða að miklu leyti um að taka fyrirtæki af efnahagsreikningum bankanna, beita eins konar fjármálaverkfræði til að endurskipuleggja þau og skrá á markað. En erlendis hafði þróunin verið í þá átt að beita virkri rekstrarnálgun og við sáum fram á að íslenski markaðurinn myndi fara sömu leið,“ segir Gunnar sem býr fyrir ríflega 20 ára reynslu af framtaksfjárfestingum og fyrirtækjaráðgjöf, og hefur stýrt slíkum verkefnum í 10 löndum.

Tilhneigingin er oft sú að leita nær einungis til fjársterkustu stofnanafjárfestanna sem geta skrifað stærstu ávísanirnar en við leitumst við að safna fjármagni frá athafnafólki

Alfa Framtak setti sinn fyrsta sjóð, Umbreytingu I, á laggirnar árið 2018. Sjóðurinn skar sig úr hópi annarra framtakssjóða á Íslandi að því leyti að tæp 60 prósent af fjármagninu – áskriftir námu alls 7 milljörðum króna – komu frá einstaklingum. Venjan hafði verið að mikill meirihluti áskrifta kæmi frá stofnanafjárfestum, einkum lífeyrissjóðum.

„Við höfum lagt mikið upp úr því að fá fólk með mikla þekkingu á fjárfestingum og rekstri til liðs við okkur. Tilhneigingin er oft sú að leita nær einungis til fjársterkustu stofnanafjárfestanna sem geta skrifað stærstu ávísanirnar en við leitumst við að safna fjármagni frá athafnafólki.“

Samsetning áskrifta í Umbreytingu II var með svipuðu móti en um 40 prósent komu frá öðrum en lífeyrissjóðum.

„Við viljum ekki „parkera“ fjármagni heldur koma með eitthvað virði að borðinu. Ein leið til þess er að geta miðlað okkar þekkingu af alls konar rekstri og að hafa unnið með mörgum stjórnendum og séð hvað hefur virkað og hvað ekki.“

Ljósmynd/Hulda Margrét

Annað sem sker Alfa Framtak úr hópi íslenskra framtakssjóða er áherslan á að allir í ferlinu hafi eitthvað að undir sjálfir, eða „skin in the game,“ eins og Gunnar kemst að orði. Hver einasti starfsmaður Alfa Framtaks og hver einast stjórnarmaður hefur fjárfest í sjóðunum.

„Við samstillum þannig hagsmuni með þeim aðilum sem hafa lagt fé í sjóðinn og tryggjum betur að verkefnum sé fylgt eftir til enda hvort sem þau ganga vel eða illa.“

Jákvætt að koma í veg fyrir að fyrirtæki drabbist niður

Þegar litið er yfir eignasafn Umbreytingar I er áberandi hversu fjölbreytt safnið er. Sjóðurinn hefur þannig fjárfest í hátæknifyrirtækinu NOX Health og ferðaþjónustufyrirtækinu Travel Connect sem fá allar tekjur sínar erlendis, en jafnframt Málmsteypu Þorgríms Jónssonar og Gröfu og Grjóti, sem sérhæfir sig í jarðvegsframkvæmdum og þjónustu við innviðauppbyggingu.

Þrjú af þeim sex fyrirtækjum sem Alfa Framtak hefur fjárfest í eru fjölskyldufyrirtæki, þ.e. fyrirtæki sem rekin voru af eigendunum.

„Það er kannski ekki vandamál nema þegar kemur að því að selja enda treysta margir fjárfestar sér ekki til að kaupa fyrirtæki þegar þekkingin á rekstrinum er bundin við seljandann. Þarna sjáum við fram á að geta skapað virði með virkri nálgun,“ segir Gunnar.

Í tilfelli Gröfu og Grjóts, sem velti 1,5 milljörðum króna á árinu 2021, keypti Alfa Framtak 60 prósenta hlut en eigandinn, Sigurður Gylfason, hélt eftir 40 prósentum og hefur því áfram hag af því að fyrirtækið vaxi og dafni.

„Hans loforð gagnvart okkur er að bera höfuðábyrgð á rekstrinum á meðan við erum meðeigendur en verkefni okkar felst í því að búa svo um hnútana að hann verði með seljanlega eign í höndunum og ekki bundinn við fyrirtækið til eilífðarnóns.“

„Annars vegar eykur það virði fyrirtækjanna að þau séu ekki háð einum einstaklingi,“ bætir Gunnar við, „en hins vegar er jákvætt fyrir atvinnulífið að koma í veg fyrir að öflug fyrirtæki drabbist niður og missi slagkraftinn.“

Fyrir hverja fjárfestingu reynum við að finna 3-5 aðgerðir sem auka virði og eftir kaupin keyrum við hundrað daga plan þar sem við samstillum sýnina með stjórnendum, og setjum markmið og árangursmælikvarða.

Virk nálgun Alfa Framtaks fól meðal annars í sér að „hlaða niður“ þekkingu Sigurðar á rekstrinum og fá hann til að skrásetja nákvæmlega hvernig hann varði vinnudeginum. Þannig var hægt að koma auga á verkefni sem hægt væri að fela öðrum. Auk þess kom Alfa Framtak inn í fyrirtækið með fjárhagslegan slagkraft sem gerði Gröfu og Grjóti kleift að kaupa Steingarð, sem velti 300 milljónum króna í fyrra.

„Fyrir hverja fjárfestingu reynum við að finna 3-5 aðgerðir sem auka virði og eftir kaupin keyrum við hundrað daga plan þar sem við samstillum sýnina með stjórnendum, og setjum markmið og árangursmælikvarða. Þannig leggjum við grunninn að ábatasömu eignarhaldi.“

Ávöxtun Umbreytingar I hefur hingað til verið góð að sögn Gunnars en umbreytingarverkefnin eru enn í gangi. Alfa Framtak stóð til að mynda að fjármögnun kaupa Nordic Visitor á Iceland Travel í fyrra og fékk rúmlega 26 prósenta hlut í sameinuðu félagi. Sameinað félagið heitir nú Travel Connect og er orðið þriðja stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins miðað við veltu en samanlögð velta samstæðunnar á árinu 2019 nam 14,4 milljörðum króna.

Nýi framtakssjóðurinn, Umbreyting II, mun fylgja sömu stefnu en hann hefur þó rýmri fjárfestingaheimildir. Sjóðurinn getur því komið fyrr inn á þroskaskeiði fyrirtækja og jafnframt fjárfest fyrirtækjum erlendis, með því skilyrði að þau séu í OECD ríki og tengist aðkomu íslenskra aðila.

„Í grunninn lítum við á okkur sem bakhjarl fyrir umbreytingarverkefni og farveg til að virkja fjármagn, bæði frá einkafjárfestum og stofnanafjárfestum, til að fjárfesta í fyrirtækjum sem hafa ekki haft mikið val þegar kemur að því að sækja hlutafé. Við viljum vera fyrsti valkosturinn fyrir stjórnendur og athafnafólk sem hefur metnað til að vaxa og ná árangri.“

Í ratsjá Alfa Framtaks eru fleiri en fimm hundruð rekstrarfyrirtæki á Íslandi sem uppfylla þau stærðarmörk sem framtakssjóðurinn miðar við.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.