Formúla 1

Piquet rekinn úr breska aksturíþróttasambandinu vegna ummæla um Hamilton

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Nelson Piquet hefur verið rekinn úr breska akstursíþróttasambandinu fyrir ummæli sín um Lewis Hamilton.
Nelson Piquet hefur verið rekinn úr breska akstursíþróttasambandinu fyrir ummæli sín um Lewis Hamilton. Vísir/Getty

Breska akstursíþróttasambandið, BRDC, hefur rekið Nelson Piquet úr sambandinu fyrir rasísk ummæli hans um sjöfalda heimsmeistaran Lewis Hamilton.

Piquet notaði rasísk orð þegar hann talaði um Lewis Hamilton í hlaðvarpsþætti á portúgölsku þar sem var verið að ræða umdeildan árekstur þeirra Hamilton og Max Verstappen í Silverstone kappakstrinum. Piquet baðst þó afsökunar á ummælum sínum í gær.

BRDC, sem á Silverstone kappakstursbrautina, segist hafa skráð afsökunarbeiðni Piquet hjá sér, en þrátt fyrir það mun hann þurfa að skila meðlimakorti sínu inn að viku liðinni.

Piquet er þrefaldur heimsmeistari í Formúlu 1, en hann stóð uppi sem sigurvegari árin 1981, 1983 og 1987. Ummæli hans um Hamilton hafa valdið miklum usla innan Formúlu 1 og hvert stórnafnið á fætur öðru hefur stigið fram til að fordæma umrædd ummæli.

Fjórfaldi heimsmeistarinn Sebastian Vettel var einn af þeim sem lét í sér heyra eftir ummælin og sagði ekkert pláss vera fyrir slíkan hugsunarhátt í samfélaginu.

„Hvers kyns mismunun er röng þannig að það var gott að sjá svona mikil viðbrögð frá Formúlu 1 samfélaginu og að fólk skuli hafa lýst yfir stuðningi sínum við Lewis,“ sagði Vettel.

„Það á ekki að vera neitt pláss fyrir svona ummæli og við eigum enn langt í land. Við erum komin mun lengra en fyrir nokkrum árum, en það hjálpar ekkert þegar það er enn fólk sem notar óviðeigandi talsmáta.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×