Körfubolti

Dúsir í rúss­nesku fangelsi fram yfir mánaðamót

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Brittney Griner hefur setið í gæsluvarðhaldi í Rússlandi síðan í febrúar.
Brittney Griner hefur setið í gæsluvarðhaldi í Rússlandi síðan í febrúar. AP Photo/Eric Gay

Brittney Griner, ein skærasta stjarna WNBA-deildarinnar í Bandaríkjunum hefur verið í haldi rússneskra yfirvalda frá því í febrúar á þessu ári. Fjölmiðlar þar í landi hafa gefið út að hún verði það áfram, fram yfir mánaðarmót hið minnsta.

Vísir greindi frá fyrr á árinu er Griner var stöðvuð á flugvelli í Moskvu þar sem hún var með rafsígarettu sem innihélt hassolíu í fórum sínum. 

Hin 31 árs gamla Griner er ein besta körfuboltakona samtímans en hún hefur tvisvar unnið gull á Ólympíuleikunum og þá hefur hún sjö sinnum tekið þátt í stjörnuleik WNBA-deildarinnar.

Mál hennar er til rannsóknar í Rússlandi og virðast Rússarnir ekki ætla að hleypa henni heim sama hversu mikið bandarísk yfirvöld biðja um það. Hún gætti átt yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsisvist í Rússlandi.

Bandarísk yfirvöld telja Rússa ekki hafa gilda ástæðu til að halda Griner svo lengi en gæsluvarðhald yfir Griner hefur nú verið framlengt í þrígang. 

Í frétt AP er vitnað í háttsettan aðila innan Rússlands sem segir það ekki koma til greina að skipta á Griner og rússneskum föngum á bandarískri grundu fyrr en niðurstaða kemst í mál hennar.

Talið er að utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hafi boðist til að skipta á Viktor Bout – „Kaupmanni dauðans“ – og Griner en Rússar afþökkuðu pent.

Ned Price, talsmaður utanríkisráðuneytisins, sagði að endingu í viðtali við AP að ráðuneytið sé að gera allt í sínu valdi til að fá Griner heim. Það hefur greinilega ekki gengið til þessa þar sem Griner hefur nú eytt tæplega fjórum mánuðum í rússnesku fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×