Skoðun

Allir eru að fá sér

Páll Ásgeir Ásgeirsson skrifar

Náttúra landsins er takmörkuð auðlind. Um þessar mundir boða stjórnvöld tvöföldun orkuframleiðslu á næstu 20 árum. Slíkt getur ekki gerst nema á kostnað náttúrunnar. Ísland ræður yfir stærstu ósnortnu víðernum í Evrópu. Heimurinn hefur trúað okkur fyrir þessari gersemi og við ættum að vernda hana fyrir komandi kynslóðir.

Engin þjóð framleiðir meira rafmagn en Ísland miðað við höfðatölu.Samt gera stjórnvöld áætlanir sem byggjast á áframhaldandi vexti. Þau fullyrða að til þess að fara í orkuskipti þurfi að auka framleiðslu um 120% á næstu áratugum. Í dag fara 80% allrar orku sem er framleidd á landinu til stóriðju.

Fyrir hvert kílówatt af orku sem íslensk heimili nota þarf stóriðjan fjögur kílówött. Áhyggjufull alþýðuheimili reyna að minnka kolefnisfótspor sitt með því að kaupa rafmagnsbíl, ferðast á reiðhjóli, fara ekki til útlanda, flokka sorp, vinna gegn matarsóun.

En fyrir hvern lítra af bensíni sem íslenskum heimilum tekst að spara þyrfti stóriðjan á Íslandi að spara fjóra. Fyrir hvert gramm af koltvísýringi sem okkur tekst að koma í veg fyrir að stígi til himins þyrfti stóriðjan að draga saman fjögur grömm.

Til þess að ná settu marki í loftslagsmálum þýðir ekki að gera áætlanir sem byggja á óbreyttu ástandi. Breytingar eru nauðsynlegar. Við getum vel náð settu marki- fullkomnum orkuskiptum með því að breyta lífsháttum okkar en þá verður líka að gera sömu kröfur til álvera og heimila.

Íslensk náttúra er opinn bar þar sem allir eru að fá sér. Um land allt eru menn önnum kafnir við að skipuleggja virkjanir, vindorkuver, hugsandi um leiðir til þess að komast framhjá leikreglum umhverfismats og skipulagslaga. Þessu verður að linna.

Eina leiðin til þess að vernda náttúruna og koma á nauðsynlegum orkuskiptum er með því að draga úr orkufrekri neyslu. Lausnin er í neysluskiptum en ekki orkuskiptum. Hættum að líta á frekari virkjanir sem lausn vandans og vöknum til nýrrar framtíðar með skynsamlegum lausnum Landverndar.

Til framtíðar getum við ekki umgengist íslenska náttúru eins og opinn bar þar sem allir eru að fá sér.

Við viljum ekki verða kynslóðin sem gerði heiminn óbyggilegan komandi kynslóðum. Þar verða stjórnvöld að ganga á undan með því að gera sömu kröfur til stóriðjunnar og fólksins í landinu.

Landvernd kynnir sviðsmyndir þar sem náttúruvernd og loftslagsvernd haldast í hendur á hádegisfundi n.k. miðvikudag. Frekari upplýsingar er að finna á fésbókarsíðu Landverndar.

Höfundur situr í stjórn Landverndar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×