Viðskipti innlent

Patreksfjörður aflahæsta höfnin á strandveiðunum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Patreksfjörður hefur forystuna eftir fyrsta mánuð strandveiðanna. Höfnin var einnig aflahæst á strandveiðunum í fyrrasumar.
Patreksfjörður hefur forystuna eftir fyrsta mánuð strandveiðanna. Höfnin var einnig aflahæst á strandveiðunum í fyrrasumar. Vilhelm Gunnarsson

Patreksfjörður er aflahæsta höfnin eftir fyrsta mánuð strandveiða sumarsins og jafnframt sú höfn þar sem flestir bátar hafa landað. Alls hafa 370 tonn borist þar á land frá 61 báti, samkvæmt yfirliti frá Landssambandi smábátaeigenda. 

Patreksfjörður var einnig mesta strandveiðihöfn síðasta sumars með yfir 1.200 tonn. Bolungarvík var þá í öðru sæti með tæplega 1.100 tonn en þessar tvær hafnir voru í sérflokki í fyrra og langhæstar. Í þriðja sæti í fyrra var Ólafsvík með um 650 tonn en síðan komu Skagaströnd, Norðurfjörður í Árneshreppi og Suðureyri með ríflega 600 tonn hver.

Flestir strandveiðibátar hafa landað á Patreksfirði í vor, eða 61 talsins.Vilhelm Gunnarsson

Alls hefur afla verið landað í 47 höfnum frá því í byrjun maímánaðar. Á eftir Patreksfirði kemur Ólafsvík í öðru sæti með 337 tonn frá 52 bátum eftir fyrsta mánuðinn. Arnarstapi er í þriðja sæti með 315 tonn frá 49 bátum. Bolungarvík er í fjórða sæti með 291 tonn frá 41 báti og Rif er í fimmta sæti með 227 tonn frá 42 bátum.

Þar á eftir koma Hornafjörður með 186 tonn, Sandgerði með 182 tonn, Skagaströnd með 164 tonn, Grundarfjörður með 130 tonn og Tálknafjörður með 125 tonn.

Athygli vekur að tveir aflahæstu bátarnir veiða báðir á svæði D, sem er suðurströndin og Suðvesturland, með Hornafirði og Borgarbyggð. Það eru Nökkvi ÁR með 17.763 kíló og Dögg SF með 16.003 kíló. Fjórði aflahæsti báturinn er einnig á D-svæðinu, Benni SF með 15.359 kíló.

Í litlu höfninni á Arnarstapa á Snæfellsnesi hafa 49 strandveiðibátar landað afla. Þar er því mikið kraðak smábáta um þessar mundir.Vilhelm Gunnarsson

Þriðji aflahæsti bátur maímánaðar kemur af svæði A, sem nær yfir Breiðafjörð og Vestfirði, frá sunnanverðu Snæfellsnesi og að Strandabyggð. Það er Grímur AK með 15.771 kíló.

Fimmti aflahæsti báturinn kemur svo af svæði C, sem nær yfir Norðausturland og Austfirði, með Þingeyjarsveit og Djúpavogi. Það er Máney SU með 14.651 kíló.

Langmesta aflanum til þessa hefur verið landað á svæði A, eða 58 prósentum af þeim fjögur þúsund tonnum, sem veiðst höfðu í morgun, samkvæmt tölum Fiskistofu. Flestir strandveiðibátarnir, sem byrjaðir eru veiðar, eru einnig á svæði A, rétt um helmingur, eða 309 bátar af 619.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×