Mikill afli og hátt fiskverð fara saman þetta vorið. Þannig nemur meðalafli á bát í hverjum róðri 712 kílóum eftir maímánuð. Það er 14 prósentum meira miðað við maímánuð í fyrra, samkvæmt úttekt á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda.
Meðalverð fyrir óslægðan þorsk á markaði var í dag 400 krónur á kíló. Meðalverð maímánaðar var hins vegar 387 krónur, miðað við 286 krónur í sama mánuði í fyrra, sem er 35 prósenta hækkun milli ára. Það þýðir að hver róður á strandveiðunum var að skila aflaverðmæti upp á 275 þúsund krónur að jafnaði á hvern bát.
Verð á ufsa hefur hækkað enn meira, eða um 106 prósent milli ára, var núna 189 krónur á kíló miðað við 92 krónur í fyrra. Ufsaafli dregst ekki frá hámarkskvóta dagsins, telst svokallaður vs-afli, en strandveiðisjómenn þurfa að greiða 20 prósent af andvirði hans í Verkefnasjóð sjávarútvegs. Ufsinn telst engu að síður góð búbót á strandveiðunum.
Aflahæstu bátar hvers svæðis eftir maímánuð eru:
Svæði A: Grímur AK með 15.771 kíló, Kolga BA með 12.758 kíló og Doddi SH með 12.481 kíló.
Svæði B: Fengur ÞH með 9.349 kíló, Gulltindur ST með 9.263 kíló og Blíðfari ÓF með 9.246 kíló.
Svæði C: Máney SU með 14.651 kíló, Jón Jak ÞH með 11.006 kíló og Lundey ÞH með 10.162 kíló
Svæði D: Nökkvi ÁR með 17.763 kíló, Dögg SF með 16.003 kíló og Benni SF með 15.359 kíló.
Samkvæmt upplýsingum Fiskistofu eru 644 bátar komnir með strandveiðileyfi. Af þeim eru 611 búnir að landa afla.