Handbolti

Sigríður fetar í fótspor ömmu sinnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigríður Hauksdóttir og Jón Halldórsson hjá handknattleiksdeild Vals handsala samninginn.
Sigríður Hauksdóttir og Jón Halldórsson hjá handknattleiksdeild Vals handsala samninginn. valur

Sigríður Hauksdóttir, landsliðskona í handbolta, hefur skrifað undir tveggja ára samning við bikarmeistara Vals.

Sigríður, sem er þrítug, kemur til Vals frá HK sem hún leikið með nær allan sinn feril. Hún lék ekkert á síðasta tímabili en hún eignaðist sitt fyrsta barn fyrir nokkru síðan.

Sigríður, sem leikur í vinstra horni, á að baki 21 landsleik. Í þeim hefur hún skorað 49 mörk.

Með félagaskiptunum til Vals fetar Sigríður í fótspor ömmu sinnar og nöfnu, Sigríðar Sigurðardóttur, sem lék með Val og var fyrsta konan sem var valin Íþróttamaður ársins 1964. Mamma Sigríðar er Guðríður Guðjónsdóttir, ein farsælasta handboltakona Íslands. Hún lék með Fram en þjálfaði Val um tíma.

„Ég er virkilega sáttur með að fá Sigríði til liðs við okkur. Ég hef unnið með henni í landsliðinu og veit því að við erum að fá öflugan leikmann jafnt sem frábæran liðsfélaga inn í okkar sterka hóp. Ég er sannfærður um að hún muni styrkja hópinn á komandi tímabili,“ sagði Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, í fréttatilkynningu frá félaginu.

Valur endaði í 2. sæti Olís-deildar kvenna á nýafstöðnu tímabili, varð bikarmeistari og komst í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn þar sem liðið tapaði 3-1 fyrir Fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×