Handbolti

Haukar missa tromp af hendi

Sindri Sverrisson skrifar
Sara Odden hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Hauka.
Sara Odden hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Hauka. vísir/hulda margrét

Sara Odden, markahæsti leikmaður handknattleiksliðs Hauka í vetur, yfirgefur Hafnarfjarðarfélagið í sumar en hún hefur samið við þýskt félag.

Þetta staðfesti Þorgeir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildar Hauka, í samtali við Vísi í dag.

Sara hefur verið algjör lykilmaður í liði Hauka frá því að hún kom til félagsins frá Svíþjóð haustið 2019 og því um mikinn missi að ræða fyrir félagið. Hún átti eitt ár eftir af samningi sínum við Hauka.

Sara var einn markahæsti leikmaður Olís-deildarinnar í vetur og skoraði að meðaltali 5,7 mörk í leik. Þar að auki var hún algjör lykilmaður í vörn Hauka og aðeins fimm leikmenn í deildinni fengu hærri varnareinkunn í vetur.

Með tvo Króata til skoðunar

Haukar enduðu í 6. sæti Olís-deildarinnar og féllu svo úr leik í 6-liða úrslitum gegn KA/Þór eftir tvo jafna leiki þar sem Sara skoraði samtals ellefu mörk.

Ljóst er að Haukar munu bregðast við brotthvarfi Söru og segir Þorgeir tvo króatíska leikmenn nú til skoðunar hjá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×