Gagnrýni

Top Gun Maverick: Geggjaður í loftinu, vonlaus á jörðu niðri

Heiðar Sumarliðason skrifar
Það er enn líf í gamla.
Það er enn líf í gamla.

Top Gun: Maverick er framhald Top Gun frá árinu 1986. Nokkrum skilnuðum og ansi mörgum hrukkum síðar er Tom Cruise hér mættur aftur í hlutverki orrustuflugmannsins óstýrláta Pete „Maverick“ Mitchell.

Það ættu mögulega að vera einhver lögbundin takmörk varðandi hversu lengi má bíða með að gera framhaldsmynd. Top Gun: Maverick þenur mörkin a.m.k. til hins ítrasta. Fyrirfram hefði ég talið að fáir iðuðu í skinninu að fá aðra Top Gun-mynd. Ég hef ekki heyrt nokkurn mann minnast á þessa mynd í 20 ár og Tom Cruise hefur mátt muna fífil sinn fegurri, með allan sinn Vísindakirkjuþvætting og meira til. 

En einhvernveginn hefur þetta tekist því samkvæmt Box Office Mojo voru tekjur hennar fyrstu sýningarhelgina í Bandaríkjunum 124 milljónir dollarar. 

Var þá bara sægur fólks þarna úti sem gat ekki beðið eftir meira af Top Gun?

Dómarnir sem bandarískir gagnrýnendur hafa gefið henni eru ótrúlega jákvæðir og viðbrögð áhorfenda eru á sama veg. 

Orðlaus

Eftir að hafa séð myndina er ég hálf orðlaus af undrun yfir þessu, á hvaða lyfjum eru áhorfendur? Ég hefði kannski átt að bryðja þessar sömu pillur, því Top Gun: Maverick er algjörlega miðlungs skemmtiefni, sem skortir allan þann sjarma sem upprunalega myndin bjó yfir. Hér er búið að taka burt alla gredduna og miðaldravæða söguheiminn. 

Til að vinna á móti því fær Maverick í hendurnar hóp ungra orrustuflugmanna til að undirbúa fyrir sérlega hættulega för. Rooster, syni Goose, félaga hans heitins úr fyrri myndinni, er svo troðið þar inn til að skapa einhverja togstreitu. En þetta virkar allt svo þvingað að mér líður eins og handritshöfundarnir sitji við hliðina á mér með harðlífi að reyna að koma þessari sögu frá sér. 

Galli myndarinnar er sú staðreynd að persóna Tom Cruise er enn í forgrunni, en persónuleg vandamál Mavericks eru hinsvegar ekki sérlega áhugaverð. Maður fer bara á hálfgerðan bömmer að fylgjast með þessum dapurlega manni. 

Besta úrvinnslan á nýrri Top Gun mynd hefði verið að færa Maverick í algjört aukahlutverk og láta Rooster fá sviðið. Þetta er að sjálfsögðu ekki hægt með stjörnu eins og Tom Cruise, því hann hefði sennilega ekki bara hoppað og skoppað heldur rústað sófanum á skrifstofu Paramount Pictures, hefði verið stungið upp á því við hann. 

Greyið konan, hún Oprah.

Því sitja handritshöfundarnir uppi með það verkefni að hanna sögu í kringum frekar sorglegan miðaldra Maverick. Mann sem hafði ekki vit á því að finna sér konu og stofna fjölskyldu, heldur virðist aðallega hangsa og klappa flugvélunum sínum þegar hann er ekki að reyna einhverja fífldirfsku. Hann er áhorfandi að lífinu og að glensi hinna ungu flugmannanna á barnum. Reynt er að gefa persónu hans eitthvað að gera með því að troða inn í söguna konu sem hann átti í ástarsambandi við áður og hryggbraut (af því hann er Maverick og það er það sem Maverick gerir).

Ég nota orðið „troða,“ af því þessi ástarþráður er svo augljóslega hannaður á einhverjum fundi inni á skrifstofu framleiðandans. Að sjálfsögðu eru kvikmyndir hannaðar, það liggur í hlutarins eðli, en trikkið er að áhorfandinn verði ekki var við það. Sagan á að flæða eðlilega, sem Top Gun: Maverick gerir ekki alltaf. 

Cruise í essinu sínu,

Það er í raun ekki nema í orrustuflugvélaatriðum sem hún nær sér á flug (þá sem myndlíking, því augljóslega fara flugmenn á flug). Þessi atriði eru hreint út sagt geggjuð; skýrari og flottari heldur en í fyrirrennara sínum. 

Lærðu eitthvað af sögunni

Höfundar Top Gun: Maverick passa sig þó á að gera ekki sömu mistök og árið 1986, en það sem felldi fyrri myndina sem heildarupplifun var dauði Goose og hvernig allt í kringum hann var dregið út í hið óendanlega. Ég segi ekki að höfundarnir hefðu átt að sleppa því að drepa Goose, en sú staðreynd að það gerðist í þriðja leikþætti myndarinnar var stór galli. Þú vilt að þriðji þáttur sé hraðari og meira spennandi en það sem á undan er komið, því er grundvallaratriði að drepa ekki framvinduna á þeim tímapunkti. 

T.d. fattaði George Lucas þetta, því Obi Wan Kenobi var sannarlega drepinn á mörkum annars og þriðja leikþáttar í Star Wars: A New Hope, en myndin hékk ekki í útfararstemningu í korter, líkt og fyrri Top Gun myndin. Því má segja það ágætis þumalputtareglu: Ef þú ætlar að drepa stóra persónu á þessum tímapunkti (sérstaklega í hasarmynd) þá verðurðu að koma sögunni aftur í gír sem fyrst.

Þriðji leikþáttur Top Gun: Maverick er það langbesta við myndina, með sínum óstöðvandi hasar og loftbardögum. Ef aðrir hlutar hennar hefðu nú bara verið betur úr garði gerðir hefði hún náð hæstu hæðum, en niðurstaðan er hins vegar kvikmynd sem í heildina flýgur hættulega nálægt jörðinni en nær þó að hífa sig upp á réttum tíma og koma í veg fyrir brotlendingu (bæði er þetta einum of augljós myndlíking og tilvísun í atriði úr myndinni). 

Ég á því eilítið erfitt með að mæla með Top Gun: Maverick, en þar sem hún fær ótrúlega jákvæð viðbrögð frá áhorfendum (8,7 á Imdb.com, 99% jákvætt á Rotten Tomatoes og A+ hjá Cinemascore), veit ég svei mér þá ekki hvað skal segja, ég mun sennilega aldrei skilja þetta og ætla því ekki að reyna það.

Niðurstaða: 

Mannlegi hluti Top Gun: Maverick virkar alls ekki, á meðan hasarinn nær hæstu hæðum. 


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.