Handbolti

Bakslag hjá Birnu: „Sumt fólk lærir víst aldrei“

Sindri Sverrisson skrifar
Birna Berg Haraldsdóttir þurfti að fara í aðra hnéaðgerð en er jákvæð eftir hana og stefnir á að geta spilað fyrsta leik á nýju tímabili í haust.
Birna Berg Haraldsdóttir þurfti að fara í aðra hnéaðgerð en er jákvæð eftir hana og stefnir á að geta spilað fyrsta leik á nýju tímabili í haust. Instagram/@birnaberg

Skyttan öfluga Birna Berg Haraldsdóttir, landsliðskona í handbolta, segist hafa flýtt sér um of í endurhæfingunni eftir krossbandsslit í hné og þurfi að muna að sýna meiri þolinmæði.

Birna sleit krossband í hné í þriðja sinn á ferlinum í september síðastliðnum og missti því af nær allri leiktíðinni með ÍBV.

Hún virtist á mjög góðum batavegi í vor en varð á endanum að fara í aðra, minni háttar aðgerð eftir að hafa farið fram úr sér, eins og hún orðar það sjálf í samtali við handbolta.is. Í seinni aðgerðinni var örvefur fjarlægður úr hnénu sem valdið hafði Birnu miklum verkjum sem hún hugðist í fyrstu ætla að leiða hjá sér.

Birna birti mynd af sér úr sjúkrarúminu á Instagram eftir aðgerðina og skrifaði:

„Því miður er þetta ekki gömul mynd til upprifjunar. Ég fékk smá bakslag í endurhæfinguna vegna krossbandsslitanna en vonandi er búið að bæta úr því núna. Þetta var áminning fyrir mig um að stoppa þegar ég fer yfir strikið og sýna meiri þolinmæði, en sumt fólk lærir víst aldrei. Það er bara svo erfitt þegar maður þráir eitthvað svo mikið.“

Án Birnu féll ÍBV úr leik í undanúrslitum Olís-deildarinnar eftir 3-0 tap gegn Fram.

Birna kveðst í samtali við handbolta.is áfram setja stefnuna á að vera tilbúin í fyrst aleik á næsta tímabili en bætir við: „Þó að markmiðið sé áfram að vera klár í fyrsta leik á næsta tímabili verð ég líka aðeins að hugsa til lengri tíma ef ég ætla að spila handbolta í eins mörg ár og ég vil.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.