Handbolti

Sjáðu brot Dags sem var í ætt við Júggabragðið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þrátt fyrir að Dagur Arnarsson hafi brotið á Stiven Tobar Valencia skoraði hann samt. Stiven gerði sex mörk úr sex skotum í leiknum.
Þrátt fyrir að Dagur Arnarsson hafi brotið á Stiven Tobar Valencia skoraði hann samt. Stiven gerði sex mörk úr sex skotum í leiknum. stöð 2 sport

Dagur Arnarsson gerði sig sekan um ljótt brot á Stiven Tobar Valencia í seinni hálfleik í leik Vals og ÍBV í úrslitum Olís-deildar karla í gær. Valur vann leikinn með tíu marka mun, 35-25.

Úrslitin í leiknum voru ráðin í hálfleik enda voru Valsmenn þá með þrettán marka forystu, 22-9. Eyjamenn svöruðu aðeins fyrir sig í seinni hálfleiknum og gengu hart fram.

Á 43. mínútu fór Dagur í fótinn á Stiven í hraðaupphlaupi. Valsmaðurinn féll við en skoraði samt.

„Maður sér það strax að hann sér mjög eftir þessu en hann kippir aðeins í hnéð á honum,“ sagði Stefán Árni Pálsson í Seinni bylgjunni eftir leikinn í gær.

Ásgeir Örn Hallgrímsson sagði að brot Dags minnti um margt á eitt þekktasta fautabragð handboltans.

„Þetta er ekki beint Júggatrixið en í ættina við það. Þetta á ekki að sjást, það er ekki flóknara en það. Þetta er stórhættulegt og við viljum ekki sjá svona,“ sagði Ásgeir. Róbert Gunnarsson tók í sama streng en hafði smá samúð með Degi.

Klippa: Seinni bylgjan - Umræða um brot Dags

„Ég er sammála því en ég held að þetta hafi verið ósjálfráð viðbrögð að stoppa hann. Ég held að hann hafi ekki ætlað að „Júgga“ hann. En þetta er stórhættulegt og hefði getað farið illa,“ sagði Róbert.

Ótrúlegt en satt slapp Dagur við brottvísun fyrir brotið á Stiven. Eyjamenn fengu fimm brottvísanir í leiknum en Valsmenn sjö.

Annar leikur Vals og ÍBV fer fram í Vestmannaeyjum á sunnudaginn. Leikurinn hefst klukkan 16:00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun Seinni bylgjunnar hefst klukkan 15:20.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.