Viðskipti innlent

Hagnaður Landsvirkjunar tæpir fimmtán milljarðar

Kjartan Kjartansson skrifar
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að flestir viðskiptavinir greiði nú sambærilegt verð við það sem gangi og gerist í samanburðarlöndunum.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að flestir viðskiptavinir greiði nú sambærilegt verð við það sem gangi og gerist í samanburðarlöndunum. Vísir/Vilhelm

Landsvirkjun hagnaðist um 14,7 milljarða króna á fyrsta fjórðungi ársins og tæplega fjórfaldaðist á milli ára. Meðalverð til stórnotenda rafmagns hefur aldrei verið hærra á einum ársfjórðungi í sögu fyrirtækisins.

Hagnaður Landsvirkjunar fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 82,5 milljónum Bandaríkjadollara (10,6 mö.kr.), en var 50,1 milljón dollara á sama tímabili árið áður og hækkar því um 64,5%, að því er kemur fram í nýbirtum árshlutareikningi fyrirtækisins.

Hagnaður tímabilsins var 115,2 milljónir dollara (14,7 ma.kr.), en var 31 milljón dollara á sama tímabili árið áður. Um helming hagnaðarins mátti rekja til óinnleystra fjármagnsliða.

Rekstrartekjur námu 164,8 milljónum dollara (21,1 mö.kr.) og hækkuðu um 34,1 milljón dollara (26,1%) frá sama tímabili árið áður.

Nettó skuldir lækkuðu um 110 milljónir dollara (14,1 ma.kr.) frá áramótum og voru í marslok 1.390,9 milljónir dollara (178 ma.kr.). Handbært fé frá rekstri nam 131 milljón dollurum (16,8 mö.kr.), sem var 53,4% hækkun frá sama tímabili árið áður.

Meðalverð til stórnotenda án flutnings var 41 dollari á megavattstund, sem er hæsta verð á einum ársfjórðungi í sögu Landsvirkjunar.

Haft er eftir Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, að eftir endursamninga síðustu missera greiði flestir viðskiptavinir fyrirtækisins nú verð sem sé sambærilegt við það sem gangi og gerist í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við.

Þar segist hann ennfremur telja að hagnaðurinn fyrir óinnleysta fjármagnsliði gefi skýrasta mynd af afkomu félagsins. Hann hafi aldrei verið hærri en nú. Það megi einkum rekja til hækkunar á raforkuverði til stórnotenda.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.