Skoðun

Reykjavík á réttri leið

Dagur B. Eggertsson skrifar

Um hvað er kosið?

Reykjavík er í örum vexti sem skapar ótal spennandi verkefni og brýn viðfangsefni. Við þurfum að tryggja græna borgarþróun og að samfélagið skapi öllum borgarbúum jöfn tækifæri. Framundan eru brýn verkefni en í mínum huga er það ótvírætt að Reykjavík er á réttri leið.

Fjárfest fyrir börn

Á undanförnum árum hefur borgin fjárfest í því sem skiptir máli í Reykjavík. Við höfum sett mikið fjármagn í leik- og grunnskólana okkar, íþróttamannvirki, húsnæðismál og búsetukjarna fyrir fatlað fólk. Við höfum lagt áherslu á meiri velferð þannig að engin sé skilin eftir – og við viljum borg þar sem gott er að eldast.

Öruggt húsnæði

Fimm þúsund Reykjavíkingar hafa fengið öruggt húsaskjól á vegum óhagnaðardrifinna húsnæðisfélaga undanfarin ár. Biðlistar eftir félagslegu húsnæði hafa minnkað um helming. Þessari uppbyggingu þarf að halda áfram og önnur sveitarfélög þurfa að fylgja með. Þannig sköpum við heilbrigðari húsnæðismarkað. Það hafa aldrei byggst eins margar íbúðir í sögu Reykjavíkur og á undanförnum fjórum árum og nú eru tilbúnar vel staðsettar lóðir til að tvöfalda uppbygginguna á næstu árum. Dreifing byggðar væri tafsamari og dýrari.

Allt er loftslagsmál

Með þéttingu byggðar erum við að nýta innviðina betur, bæta þjónustu og skapa skemmtilegri og betri borg. Við erum líka að bæta umferðarmálin, umhverfið og loftslagið. Við höfum lagt hjólastíga út um allt og ætlum að gera meira af því. Á næsta kjörtímabili mun Borgarlínan komast til framkvæmda og Miklabraut fer í stokk – ef núverandi stefna heldur áfram. Annars verður stóra stopp og umferðin, umhverfið og loftslagsmálin líða fyrir.

Kæri kjósandi. Samfylkingin er öflugt og jákvætt umbreytingarafl sem vill græna borg og jöfnuð. Til þess þarf skýra framtíðarsýn og útsjónarsemi en líka úthald, festu og seiglu. Ég bið um þinn stuðning og skýrt umboð til að halda áfram.

Höfundur er borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×