Skoðun

Lofts­lags­mál og bættar sam­göngur í Kópa­vogi

Erlendur Geirdal skrifar

Loftslagsvá steðjar að jörðinni okkar og til að takast á við þetta stærsta verkefni mannkynsins þurfum við öll að breyta lífsvenjum okkar. Sveitarstjórnir leika stórt hlutverk í umhverfismálum og ákvarðanir þeirra og skipulag getur haft afgerandi áhrif á loftslagsmál.

Kópavogur sýni frumkvæði

Kópavogsbær hefur ekki verið leiðandi á landsvísu í umhverfismálum en því viljum við í Samfylkingunni í Kópavogi breyta. Við viljum að bærinn sýni frumkvæði og verði öðrum fyrirmynd í því að minnka kolefnisspor, bæta loftgæði og auka hlut vistvænna ferðahátta með fjölgun stíga og stuðningi við almenningssamgöngur.

Betri samgöngur

Við styðjum Borgarlínu heilshugar enda er hún er lykilþáttur í framtíðarsamgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Afar mikilvægt er að sáttmálinn um uppbyggingu hennar sem öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa undirritað, verði haldinn og að áætlaðar framkvæmdir tefjist ekki, jafnvel þótt nýtt fólk komi í sveitarstjórnir að loknum kosningum.

Með Borgarlínu tengist í fyrsta áfanga, miðbær Reykjavíkur við Kársnesið og Hamraborgina í Kópavogi og þar þarf að gera ráð fyrir að fólk geti greiðlega tekið almenningsvagna eða hjólað til annarra svæða í bænum. Því þarf að huga að góðum hjólageymslum og aðgangi að deilihjólum og deilibílum þar.

Í Kópavogi þarf að uppfæra áragamla hjólreiðaáætlun og gera átak í gerð og lagfæringum á göngu- og hjólastígum svo auðvelt sé að komast hjólandi á milli hverfa í bænum. Moka þarf snjó af samgöngustígum eftir þörfum á vetrum til jafns við bílaleiðir og hafa samráð um snjómokstur stíga við nágrannasveitarfélögin.

Hringrásarhagkerfi og fræðsla til bæjarbúa

Samfylkingin vill að Kópavogsbær líti til loftslags- og umhverfisáhrifa við öll innkaup á vörum, bílum og tækjum til bæjarins. Einnig við innkaup á matföngum fyrir leik- og grunnskóla og önnur mötuneyti á vegum bæjarins.

Við viljum að bærinn setji upp sérstaka loftslagssíðu á vef bæjarins. Þar verði mælaborð með kolefnisbókhaldi Kópavogs ásamt öðrum umhverfisupplýsingum og fræðslu um hringrásarhagkerfið og hvað fyrirtæki og einstaklingar geta gert til að hafa jákvæð áhrif á umhverfið með því að breyta lífsháttum sínum, neysluhegðun og endurnýtingu hluta.

Allt skipulag taki mið af umhverfisáhrifum

Áhrif á umhverfi og loftslag þurfa að verða sjálfsagður hluti alls skipulags og á framvegis að hafa til hliðsjónar við alla ákvarðanatöku hjá Kópavogsbæ því ólíklegustu mál geta haft áhrif á losun kolefnis. Sérstaklega þarf að huga að því að nýbyggingar fylgi vistvænum stöðlum og séu byggðar til að endast vel og lengi.

Erlendur Geirdal skipar 3ja sæti á lista Samfylkingarinnar í Kópavogi



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×