Skoðun

Opnum „kóða“ ljósa­stýringa í Reykja­vík

Ólafur Kr. Guðmundsson skrifar

Af hverju liggur ekki fyrir opinberlega hvað ræður lengd og tíðni rauðra ljósa á götum borgarinnar? Hverjar eru reglurnar sem stýra umferðarljósunum? Getum við gert betur!!!

Vandræðagangur með ljósastýringar á höfuðborgarsvæðinu hefur verið með þeim hætti að varla nokkur maður áttar sig orðið á því hvar hnífurinn stendur í kúnni.

Snjallvæðing umferðarljósa er talin geta bætt umferðarflæði um 15% og dregið úr tafatíma á rauðum ljósum um amk. 40%. Fyrir marga ættu umhverfisáhrifin og minni losun gróðurhúsalofttegunda að duga sem réttlæting fyrir því að ganga strax til verksins. Fyrir aðra ætti aukinn tími með fjölskyldunni að réttlæta algeran forgang þess að koma ljósastýringum höfuðborgarsvæðisins í lag.

Það var raunar svo að í framhaldsnefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar, þegar Alþingi veitti heimild til að stofna Betri samgöngur ohf. í júní 2020 samkvæmt samgöngusáttmálanum, var sérstaklega tekið á málum er varða ljósastrýringar. Í álitinu segir: „Bætt umferðarstýring með endurbættri umferðarljósastýringu er ein hagkvæmasta framkvæmdin sem ætlunin er að ráðast í og nauðsynlegt að forgangsraðað verði fyrir því verkefni strax og félagið tekur til starfa.“ Áfram er áréttað að Betri samgöngur ohf.„setji slíkar framkvæmdir í forgang, því að slík umferðarstýring hefur veruleg áhrif á umferðarflæði með hlutfallslega litlum tilkostnaði.“

En svo bara gerist ekki neitt. Mögulega vill Bragga-meirihlutinn ekki bæta umferðarflæði innan borgarinnar, enda verður þá erfiðara að réttlæta Borgarlínubrjálæðið og þörfin á sérrými minnkar.

Eftir situr fólk fast í umferð, tafatíminn vex og mun vaxa enn frekar nái draumur borgarstjóra um Borgarlínu fram að ganga.

Með gegnsæi í huga og þess að sækja í visku fjöldans, þá lýsi ég því hér með yfir, að mín fyrsta tillaga verði ég kosinn til setu í borgarstjórn verður þess efnis að „kóðinn“ fyrir ljósastýringar á höfuðborgarsvæðinu verði opnaður og gerður aðgengilegur, þannig að allir geti skoðað hvernig ljósastýringarnar virka og um leið séð hvort mögulega sé ekki verið að nýta núverandi afkastagetu gatnakerfisins með besta hætti.

Margir hafa pirrað sig á rauðum ljósum þar sem enginn er sjáanlegur, hvorki bíll, né til dæmis einstaklingur að fara yfir götuna við eldrautt gönguljós á Miklubrautinni.

Opnum þessar upplýsingar og gerum þær öllum aðgengilegar. Af hverju ætti að vera feluleikur um það hvað ræður lengd og tíðni rauðra ljósa á höfuðborgarsvæðinu. Markmiðið á að vera að minnka tafatíma allra !!!

Höfundur er umferðarsérfræðingur og frambjóðandi fyrir Miðflokkinn í Reykjavík.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×