Handbolti

Helsti handboltaspekingur Dana gagnrýnir Aron

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Pálmarsson í leik Veszprém og Álaborgar í gær.
Aron Pálmarsson í leik Veszprém og Álaborgar í gær. epa/Tamas Vasvari

Einn helsti handboltasérfræðingur Dana gagnrýndi Aron Pálmarsson fyrir frammistöðu hans í leik Veszprém og Álaborgar í Meistaradeild Evrópu í gær.

Möguleikar Álaborgar á að komast í úrslitahelgi Meistaradeildarinnar eru ekki miklir eftir sjö marka tap fyrir Veszprém í gær, 36-29.

Aron sýndi ekki sínar bestu hliðar gegn sínu gamla liði. Landsliðfyrirliðinn skoraði tvö mörk úr fimm skotum og gaf tvær stoðsendingar.

Íslandsvinurinn Bent Nygaard, sem hefur lengi verið einn helsti handboltasérfræðingur Dana, var ekki hrifinn af framlagi Arons í leiknum.

„Veszprém nýtti sér frábæran heimavöll til hins ítrasta. Mikilvægir leikmenn, sérstaklega Aron, náðu sér ekki á strik! Sjö marka munur er of mikið,“ skrifaði Nygaard á Twitter eftir leikinn í Veszprém.

Seinni leikur Álaborgar og Veszprém fer fram í Danmörku á miðvikudaginn og ljóst er að Aron og félagar þurfa heldur betur að láta hendur standa fram úr ermum til að komast í úrslitahelgina í Köln.

Aron hefur oftar en ekki blómstað í úrslitahelgi Meistaradeildarinnar. Hann varð Evrópumeistari með Kiel 2010 og 2012, Barcelona 2021 og fór í úrslit með Kiel 2014, Veszprém 2016 og Barcelona 2020. Hann var valinn besti leikmaður úrslitahelgar Meistaradeildarinnar 2014.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.