Handbolti

Guðjón Valur stýrði Gummersbach upp og Elliði öskursöng YNWA

Sindri Sverrisson skrifar
Elliði Snær Viðarsson tók vel undir í fagnaðarlátum Gummersbach í gærkvöld.
Elliði Snær Viðarsson tók vel undir í fagnaðarlátum Gummersbach í gærkvöld. @vflgummersbach

Guðjón Valur Sigurðsson, Elliði Snær Viðarsson og Hákon Daði Styrmisson gátu í gærkvöld fagnað sæti Gummersbach í efstu deild Þýskalands á næstu leiktíð.

Guðjón Valur tók við stjórn Gummersbach fyrir tveimur árum og var aðeins einu stigi frá því að skila liðinu beint upp í efstu deild í fyrra. Nú er liðið hins vegar langefst í 2. deildinni og þegar búið að tryggja sér sæti í efstu deild.

Það varð endanlega ljóst í gærkvöld þegar liðið í 2. sæti, Hamm, gerði jafntefli við Grosswallstadt. Lærisveinar Guðjóns voru ekki að spila í gær en fylgdust með því saman þegar úrslitin réðust og fögnuðu vel og innilega.

Fagnaðarlætin héldu svo áfram fram á nótt og Eyjamaðurinn Elliði lét ekki sitt eftir liggja og sérstaklega þegar leikmenn sungu saman lagið You‘ll Never Walk Alone sem Íslendingar þekkja sjálfsagt best frá Anfield í Liverpool.

Fagnaðarlætin munu svo halda áfram á laugardagskvöld eftir næsta heimaleik Gummersbach. Leikmenn og þjálfarar munu þá stíga á svið og eiga svo góða stund með stuðningsmönnum, undir ljúfum tónum og með góða drykki í glasi, samkvæmt heimasíðu félagsins.

Þrír Íslendingar hafa leikið með Gummersbach í vetur. Elliði hefur skorað 94 mörk í 32 leikjum og annar Eyjamaður, Hákon Daði, 76 mörk í 16 leikjum en þessi öflugi hornamaður sleit krossband í hné í desember. Óðinn Þór Ríkharðsson tók svo stutt hlé frá KA í Olís-deildinni og lék þrjá leiki með Gummersbach til að leysa af og skoraði í þeim 17 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×