Skoðun

Sama hvað þú kýst

Arnar Sigurðsson skrifar

Þann áttunda maí í fyrra hóf fyrsta frjálsa netverslun landsins með áfengi starfsemi sína og hafa neytendur notið ávinnings af hagstæðara vöruverði síðan þá. Netverslunin færir íslenskum neytendum milliliðalaus viðskipti með vín og bjór á heildsölustigi. Þannig fá neytendur gjarnan fjórðu bjórkippuna frítt í frelsinu en helsið hyglar tjah…einhverjum öðrum.

Viðskiptafrelsi er forsenda þess sem kallað er ,,heilbrigð samkeppni” hvar upplýstir neytendur geti valið eða hafnað vörum eða þjónustu að eigin vild. Svo óumdeild er þessi kenning að íslenskur almenningur ver á hverju ári 540 milljónum í rekstur Samkeppniseftirlits. Fyrir þá sem ekki hafa kynnt sér kosti virkrar samkeppni má benda á ótal skólabækur og ritgerðir auk erindis forstjóra eftirlitsins hvar tæpt er á atriðum er varða ,,nýsköpun, jöfnuð og spillingu”. Í erindinu nefnir núverandi forstjóri eftirlitsins að:

Virk samkeppni vinnur gegn ójöfnuði og samkeppnisreglur vinna gegn því að eigendur fyrirtækja geti hagnast óheft á kostnað neytenda og viðskiptavina.

Í niðurlagi álitsins áréttar samkeppnisforstjórinn svo að „allar stofnanir Stjórnarráðsins vinni að hagsmunum neytenda af virkri samkeppni“ sem auðvitað er áskorun til Alþingis um að leggja niður einokunarstofnunina ÁTVR.

Margir telja að ef einokunarverslun með áfengi líði undir lok muni hið opinbera verða af skatttekjum sem er misskilningur. Áfengisgjald og virðisaukaskattur leggst á allt áfengi óháð sölufyrirkomulagi og þess vegna vinnur ríkið alltaf sama hvort þú kýst frelsi eða helsi.

Höfundur rekur fyrirtækið Sante.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×