Lífið

Oddvitaáskorunin: Horfir vandræðalega mikið á raunveruleikaþætti

Samúel Karl Ólason skrifar
IMG_8919 (1)

Vísir stendur fyrir Oddvitaáskoruninni 2022 þar sem skorað er á oddvita allra flokka í sveitarfélögum um land allt að taka þátt. Áskorunin felur í sér stutta kynningu og að svara nokkrum léttum spurningum.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir leiðir lista Framsóknar á Akureyri í komandi sveitarstjórnarkosningum..

Sunna Hlín Jóhannesdóttir heiti ég og er oddviti Framsóknar á Akureyri. Ég er mikið náttúrubarn og finnst ekkert skemmtilegra en að fara út að leika, hvort sem það er að ganga á fjöll, hjóla eða fara á gönguskíði og finnst gaman að komast á hestbak annað slagið.

Ég starfa sem kennari á viðskipta- og hagfræðibraut Verkmenntaskólans á Akureyri auk þess að vera varabæjarfulltrúi. Ég er gift Hjörvari Kristjánssyni verkfræðingi og á tvo unglinga sem bæði leggja stund á knattspyrnu.

Við í Framsókn á Akureyri viljum fjárfesta í velferð barna og hækkandi lífaldur kallar einnig á breytt viðhorf gagnvart skipulagi og í þjónustu við eldra fólk. Unga fólkið er framtíð okkar og til að halda í þau og laða að fleiri íbúa þá verður að vera nægt húsnæði í boði og fjölbreytt atvinnutækifæri.

Síðast en ekki ekki síst vil ég taka þátt í að vinna að uppgangi Akureyrar sem smám saman er að breytast í litla borg með fjölbreytta þjónustu, verslun, menningu og menntun en hefur um leið kosti dreifbýlisins.

Hver er fallegasti staðurinn á Íslandi?

Maðurinn minn er að ná að sannfæra mig um að hálendið sé algjör perla þótt klukkustundirnar í bílnum á 20 km hraða geti verið krefjandi.

Er eitthvað lítilvægt sem fer þó í taugarnar á þér í þínu sveitarfélagi sem þú vilt að sé lagað?

Mættum stundum ganga aðeins betur um bæinn okkar.

Hvert er þitt uppáhalds áhugamál sem gæti þótt skrítið?

Ég horfi vandræðalega mikið á raunveruleikaþætti.

Hver eru þín minnistæðustu samskipti við lögregluna?

Það var þegar einhver dásamleg lögga á Akureyri hringdi í mig fyrir nokkrum árum með þær fréttir að síminn minn hefði fundist upp á Vaðlaheiði og að hann hefði tekið hann í sundur og væri að þurrka hann á ofni fyrir mig. Ég hafði semsagt glatað honum í hestaferð tveimur dögum fyrr.

Hvað færðu þér á pizzu?

Pepperoni og döðlur.

Hvaða lag peppar þig mest?

Þessa dagana er það Stay með Rihanna. Ég veit að það er ekkert sérstaklega mikið pepp lag en það virkar fyrir mig. Fékk æði fyrir þessu lagi þegar sonur minn sýndi mér Youtube myndband af Ronaldo lifa sig einstaklega vel inn í þetta lag og syngja með af hástöfum.

Hvað getur þú tekið margar armbeygjur?

Humm, ertu að meina á hnjánum. Skýli mér á bakvið brotið viðbein sem gróf saman í kross.

Göngutúr eða skokk?

Fjallganga.

Uppáhalds brandari?

Lífið sjálft er miklu skemmtilegra en tilbúinn brandari.

Hvað er þitt draumafríi?

Þessa dagana gæli ég við hjólaferð erlendis milli krúttlegra þorpa eða hjóla Fjallabaksleið syðri á fjallahjólinu mínu.

Hvort fannst þér 2020 eða 2021 vera verra ár?

Auðvitað voru þetta krefjandi ár en á sama tíma held ég að þessi tími hafi þjappað kjarnafjölskyldunum saman. Þau renna nokkuð saman hjá mér þessi ár en versti tíminn fyrir mig sem framhaldsskólakennari var þegar við gátum ekki haldið uppi staðnámi og töluðum við tölvuskjái allan daginn og oft enginn heima hinum megin.

Uppáhalds tónlistarmaður?

Hef verið hrifin af kvenkyns söngvurum í gegnum tíðina en þær þurfa að vera svalar. T.d. Amy Winehouse, Sheryl Crow, Shirley Ann Manson og fleiri. Í seinni tíð þá hef ég lúmskt gaman af íslensku rappsenunni.

Hvað er það skrýtnasta sem þú manst eftir að hafa gert?

Mér finnst það ekkert skýtið en öllum öðrum. Drekk mjólk með poppi og dýfi því stundum ofan í mjólkina.

Ef það væri gerð kvikmynd um ævi þína, hver ætti að leika þig? Má vera íslenskur eða útlenskur.

Held það finnist bara ekki nægilega svipsterk leikkona. Kannski Sólveig Arnarsdóttir.

Hefur þú verið í verbúð?

Nei því miður missti ég af því. Var meira í því að mjólka kýr en slægja fisk.

Áhrifamesta kvikmyndin?

The Truman Show.

Áttu eftir að sakna Nágranna?

Horfði á Nágranna í mörg ár sem ung stelpa og furða mig oft á því þegar ég sé Nágranna á skjánum hversu lítið Susan hefur elst. Væri til í að vita hvaða yngingarlyf hún notar.

Ef þú yrðir að flytja úr þínu sveitarfélagi, hvert myndir þú helst vilja fara?

Ég myndi flytja í eitthvað af nágrannasveitarfélögunum.

Uppáhalds „guilty pleasure“ lag? (skammast þín smá fyrir að hafa gaman af því – sakbitin sæla)

Eitthvað gamalt og gott með Britney Spears.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.