Skoðun

Niður­staða í máli Garð­yrkju­skólans á Reykjum

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir skrifar

Málefni Garðyrkjuskólans á Reykjum hafa heldur betur verið milli tannanna á fólki síðastliðnar vikur og mánuði. Ýmsir aðilar kepptust um að fullyrða um að ekkert væri viðhafst innan ríkisstjórnarinnar og spjótum beint að Framsókn. Auðvitað var það svo ráðherra Framsóknar, Ásmundur Einar Daðason, sem greip boltann og leiddi málið til lykta með árangursríkum hætti sem er garðyrkjunámi á Íslandi til hagsbóta. Verkin tala sínu máli og munu gera það áfram.

Framsókn klárar málið

Á föstudaginn síðastliðinn kynnti mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar, samkomulag um að rekstur starfsmenntanáms í garðyrkju og skyldum greinum yrði tryggður. Fjölbrautaskóli Suðurlands mun taka við umsjón verkefnisins og bjóða öllu starfsfólki Landbúnaðarháskóla Íslands sem hefur sinnt kennslu og tengdum störfum á Reykjum ráðningu frá 1. ágúst 2022.

Þetta er vissulega fagnaðarefni. Samkomulagið mun tryggja áframhaldandi garðyrkjunám á Reykjum og fyrirkomulagið mun efla það enn frekar. Starfsmenn halda sinni vinnu og nemar þurfa ekki að hafa áhyggjur.

Eflt nám og uppbygging

Einnig var ákveðið að umsýsla Reykjatorfunnar og mannvirkja fyrrum Garðyrkjuskólans á Reykjum í Ölfusi flytjist frá Landbúnaðarháskóla Íslands til Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna við upphaf haustannar 2022. Það er forsenda þess að hægt sé að nýta svæðið á nýjum vettvangi undir námið. Með því verða húsakostum viðhaldið á réttan máta ásamt því að frekari uppbyggingu má vænta. Næsta ár verða heldur betur spennandi í íslensku garðyrkjunámi.

Einnig verður skipaður starfshópur undir forystu mennta- og barnamálaráðuneytisins um framtíðarfyrirkomulag og nýtingu á Reykjum og eflingu starfsnáms, rannsókna og nýsköpunarstarfs. Starfshópurinn mun skoða tengingu námsins við atvinnulífið og ákveðið sjálfstæði þess gagnvart FSU. Að loknum störfum skal starfshópurinn skila inn tillögum að úrbótum á starfsemi og frekari eflingu hennar, þá varðandi bæði uppbyggingu á svæðinu, bætta kennslu og bættrar námsaðstöðu (aðstaða, tækjakostur, námsefni o.fl. sem þar á við). Mennta- og barnamálaráðherra getur þá í samvinnu við FSU unnið í átt að gera námið enn öflugra, sem vissulega er starfsmönnum, nemum og garðyrkjunáminu öllu til hagsbóta. Gert er ráð fyrir að tillögur starfshópsins liggi fyrir í desember 2022.

Mikil gróska á náminu

Nú þegar hafa 108 manns innritað sig í starfsnám í garðyrkju og skyldum greinum. Það er greinilegt að áhuginn er til staðar og því er mikilvægt að þessi stóru skref voru stigin í átt að frekari eflingu námsins. Garðyrkjunám þjónar stóru hlutverki í framtíð Íslands, þá bæði varðandi fæðuöryggi og baráttunni við loftlagsbreytingar. Með aðgerðum Framsóknar er verið að stuðla að sjálfbærri framleiðslu íslenskra matvæla og auka tæknivæðingu.

Höfundur er þingmaður Framsóknar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×