Handbolti

Bjarni og félagar tóku forystuna eftir sigur í vítakastkeppni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bjarni Ófeigur Valdimarsson og félagar hans í Skövde unnu vægast sagt nauman sigur.
Bjarni Ófeigur Valdimarsson og félagar hans í Skövde unnu vægast sagt nauman sigur. Skövde

Bjarni Ófeigur Valdimarsson og félagar hans í Skövde unnu vægast sagt nauman sigur er liðið tók á móti Kristianstad í fyrstu viðureign liðanna í undanúrslitarimmu sænsku úrvalsdeildarinnar í handbolta. Grípa þurfti til vítakastkeppni til að skera úr um sigurvegara.

Eins og gefur að skilja var jafnræði með liðunum allt frá fyrstu mínútu, enda höfnuðu liðin í öðru og þriðja sæti deildarkeppninnar.

Gestirnir í Kristianstad höfðu yfirhöndina í fyrri hálfleik og leiddu með tveimur mörkum þegar gengið var til búningsherbergja, staðan 14-16. Bjarni og félagar snéru því svo við í síðari hálfleik og staðan var 27-27 að venjuegum leiktíma loknum.

Það var því framlenging sem tók við, en þar skoruðu bæði lið níu mörk og staðan því 36-36 að framlengingu lokinni.

Það þurftu því að grípa til vítakastkeppni til að skera úr um sigurvegara. Bjarni og félagar nýttu öll fimm víti sín, en gestirnir skoruðu aðeins úr fjórum og heimamenn í Skövde fögnuðu því dramatískum sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×