Viðskipti innlent

Vonast til að hefja framkvæmdir við stórvirkjun í Þjórsá í haust

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ásbjörg Kristinsdóttir er framkvæmdastjóri framkvæmdasviðs Landsvirkjunar.
Ásbjörg Kristinsdóttir er framkvæmdastjóri framkvæmdasviðs Landsvirkjunar. Egill Aðalsteinsson

Landsvirkjun vonast til að virkjunarleyfi fyrir næstu stórvirkjun landsins, Hvammsvirkjun í Þjórsá, verði auglýst á næstu dögum og stefnir að því að hefja undirbúningsframkvæmdir með haustinu.

Í fréttum Stöðvar 2 var fjallað um fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir Landsvirkjunar en þær hafa jafnan verið með stærstu verkefnum hvers tíma hérlendis. Þær síðustu voru gufluaflsvirkjun á Þeistareykjum og stækkun Búrfellsvirkjunar, sem lauk vorið 2018.

Eftir fjögurra ára framkvæmdahlé hillir núna undir að kyrrstöðunni sé að ljúka. Langt undirbúningsferli Hvammsvirkjunar í Þjórsá er á lokametrunum.

Þjórsá verður stífluð á móts við Skarðsfjall, ofan við bæinn Stóra-Núp. Inntakslón myndast neðan við bæinn Haga.Landsvirkjun

„Við erum búin að vera að huga að þessum virkjunarkosti í rúm þrjátíu ár. Hann er núna á útboðshönnunarstigi, sem þýðir að við erum komin ansi langt með hönnun,“ segir Ásbjörg Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri framkvæmdasviðs Landsvirkjunar.

„Við erum komin með skipulagsmálin í höfn þarna. Sveitarfélagið er búið að staðfesta þetta, á bæði deiliskipulagi og aðalskipulagi.“

Það er í höndum Skeiða- og Gnúpverjahrepps að veita framkvæmdaleyfi. Fyrst þarf virkjunarleyfi frá Orkustofnun sem Landsvirkjun sótti um fyrir tíu mánuðum.

„Það er nú bara í ferli hjá þeim. Við eigum von á því bara á næstu dögum að þeir muni auglýsa það, setja þá auglýsingu út, en umsókn um framkvæmdaleyfið mun fara á borð sveitarstjórnar fljótlega,“ segir Ásbjörg.

Byrjað yrði á vegagerð og greftri frárennslisskurðar en efnið úr skurðinum yrði nýtt í vegina. En hvenær gætu framkvæmdir hafist?

„Ef allt gengur eftir varðandi leyfismál, og ef að stjórnin er því samþykk, þá gæti þetta verið virkjunarkostur sem við gætum farið að horfa til að setja í kannski undirbúningsframkvæmdir einhvern tímann með haustinu.“

Stöðvarhúsið verður neðanjarðar. Frárennslisskurðurinn sést hægra megin. Ofar sést Búrfell.Landsvirkjun

Hvorki þarf nýjar háspennulínur né miðlunarlón vegna Hvammsvirkjunar. Nýtt inntakslón ofan stíflu breytir hins vegar ásýnd Þjórsár á svæðinu.

„Það er svona einkum það sem er umdeilt um þessa framkvæmd, það er þessi ásýndarbreyting sem kemur með þessu inntakslóni og stíflum samhliða því. Og svo frárennslisskurðurinn sem liggur frá stöðinni.“

Framkvæmdir við þessa 95 megavatta virkjun gætu svo farið á fullt síðla næsta árs.

„Við erum að ganga út frá því, miðað við núverandi áætlun, að við getum gangsett þessa virkjun einhvern tímann á árinu 2027.“

-Og það er næg þörf fyrir orkuna?

„Það er vissulega næg eftirspurn eftir orku,“ svarar framkvæmdastjóri framkvæmdasviðs Landsvirkjunar.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:

Hvammsvirkjun fylgir að ný brú verður byggð á Þjórsá á móts við Árnes sem heimamenn hafa lengi beðið eftir og fjallað var um þessari frétt árið 2009:


Tengdar fréttir

Hafa lagt inn um­sókn um virkjunar­leyfi vegna Hvamms­virkjunar

Landsvirkjun hefur lagt inn umsókn hjá Orkustofnun um virkjunarleyfi vegna Hvammsvirkjunar, sem yrði þá neðsta aflstöðin á Þjórsársvæðinu. Virkjunarleyfi er forsenda þess að síðar verði hægt að óska eftir framkvæmdaleyfi.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.