Innlent

Lögreglu beri að aðstoða þrátt fyrir hættu á fuglaflensu

Bjarki Sigurðsson skrifar
Brigitte vill ítreka við hunda- og kattaeigendur að skyldu gæludýrin koma heim með dauðan fugl, að ekki snerta þá með berum höndum.
Brigitte vill ítreka við hunda- og kattaeigendur að skyldu gæludýrin koma heim með dauðan fugl, að ekki snerta þá með berum höndum. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Brigitte Brugger, dýralæknir alifuglasjúkdóma hjá Matvælastofnun, segir að þó það sé ólíklegt, þá sé ekki hægt að útiloka það að fuglaflensan smitist í önnur dýr.

„Við höfum fengið fjölmargar ábendingar um dauða villta fugla. Við höfum tekið þessar ábendingar til meðferðar og tekið sýni þar sem við töldum þess þörf. Það eru ekki komnar niðurstöður úr þeim og því höfum við ekki fleiri upplýsingar um þau.“

Þekkingin ekki næg

Aðspurð segir Brigitte að það sé ekki útilokað fyrir fuglaflensuna að berast til annara dýrategunda.

„Staðan og þekkingin í dag er þannig að smithættan fyrir önnur spendýr er lítil. Við getum aldrei útilokað það en með þessum veirum sem eru að ganga um í Evrópu þá eru sterkar vísbendingar um að önnur dýr smitist ekki en það gæti þó gerst,“ segir Brigitte.

Nota hlífðarbúnað

Vísir greindi frá því í gærkvöldi að vængbrotin súla fengi ekki aðstoð frá lögreglu vegna hættu á fuglaflensusmiti. Brigitte segir að lögreglunni beri að aðstoða fuglinn en sé það ekki hægt ætti að kalla á dýralækni til að aflífa hann.

„Við erum búin að upplýsa lögregluna, sveitarfélögin og dýralækna um svona mál. Þegar fuglar eða önnur dýr finnast veik þessa daga, það er náttúrulega alltaf grunur um fuglaflensu þrátt fyrir að við vitum það ekki, þá er rétt að aflífa fuglinn en ekki með skotvopni,“ segir Brigitte en þá gæti vefur eða blóð úr fuglinum skvest út um allt og mengað náttúruna.

„Þá er rétt að kalla til dýralækni sem aflífar fuglinn með banvænni sprautu“

Hún vill ítreka við hunda- og kattaeigendur að skyldu gæludýrin koma heim með dauðan fugl, að ekki snerta þá með berum höndum. Nota ætti hlífðarbúnað við það.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×