Körfubolti

Hjalti: Töpuðum allt of mörgum boltum í allan vetur

Ísak Óli Traustason skrifar
Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur.
Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur. Vísir/Bára Dröfn

Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur var vonsvikinn eftir tap sinna manna gegn Tindastól í 8-liða úrslitum Subway deildarinnar.

„Ég hafði virkilega trú á því að við myndum taka þá hérna í kvöld,“ sagði Hjalti og bætti við að orkustig Stólanna hafi verið miklu hærra.

Tapaðir boltar reyndust Keflvíkingum dýrkeyptir í leiknum en liðið tapaði 15 boltum í leiknum.

„Við erum búnir að tapa fullt af boltum og allt of mörgum boltum, við erum með örugglega reynslumesta liðið hvað varðar bakverði í deildinni en  við erum að tapa allt of mörgum boltum og líka óþvinguðum boltum í allan vetur,“ sagði Hjalti.

„Ég held við séum að tapa flestum boltum í deildinni sem mér finnst skrítið, við erum að tapa að meðaltali 20 boltum í þessari seríu,“ sagði Hjalti.

Tindastóll mættu af krafti í leikinn og gekk erfiðlega hjá Keflavík að svara ákefðinni hjá heimamönnum.

„Þeir ýttu okkur út úr öllu og voru aggresívir og voru á línunni hjá dómurnum eða aðeins yfir það, þannig á bara að spila körfubolta. Við lúffuðum bara og bökkuð svolítið frá þeim,“ sagði Hjalti.

Aðspurður út í tímabilið sem heild sagði Hjalti að það væri alltaf vonbrigði fyrir Keflavík að tapa í 8-liða úrslitum og bætti því við án þess þó að afsaka neitt að þeir væru búnir að vera óheppnir í vetur.

„David (David Okeke), sem að mínu mati var langbesti leikmaðurinn í þessari deild meiðist í deildarleik á móti Tindastól. CJ (CJ Burks) hvarf allt í einu og við tökum Mu (Mustapha Heron) inn, við náum varla tíu leikmönnum á löngu tímabili í vetur þar sem að menn eru bara veikir og vesen.“

Ofan á allt saman voru veikindi í liðinu. „Rétt fyrir playoffs var Hörður fárveikur, Jaka fárveikur, Valur fárveikur. Þegar að við spilum á móti Tindastól í deildinni þá vantar hálft liðið, seasonið er eins og það er en við áttum að gera betur hérna í kvöld,“ sagði Hjalti.

Það var búinn að vera góður taktur í Keflavíkurliðinnu í undanförnum leikjum og tók Hjalti undir það.

„Stígandinn var góður í liðinu, við vorum að gera betur og betur og betur, svo brotlendum við í þessum leik en spurning hvort að þetta hafi verið orkuleysi almennt. Hvort menn hafi verið búnir með orkuna eða hvað það var.“

„En að öðru leiti vorum við að gera vel í þessari seríu og við áttum að vinna hérna í þriðja leik að mínu mati og þá hefðum við klárað þetta heima en síðan brotlendum við í kvöld,“ sagði Hjalti.

Aðspurður út í það hvort hann yrði áfram þjálfari liðsins á næsta tímabili svaraði hann því að hann væri til í að vera áfram.

„En það er alltaf vonbrigði að Keflavík detti út í átta liða og Keflavík á ekki að detta út í átta liða,“ sagði Hjalti að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×