Handbolti

Lítið um óvænt úrslit í umspilinu

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Nemanja Ilico og félagar verða með á HM.
Nemanja Ilico og félagar verða með á HM. vísir/Getty

Þýskaland, Serbía, Króatía og Ungverjaland verða með á HM í handbolta sem fram fer í Svíþjóð og Póllandi í byrjun næsta árs.

Umspilsviðureignir fóru fram víða um Evrópu í dag þar sem Ísland rúllaði meðal annars yfir Austurríki að Ásvöllum í dag.

Króatar fóru illa með Finna í dag og unnu fjórtán marka sigur og einvígið samtals 70-43.

Talsverð eftirvænting var fyrir síðari viðrueign Serba og Slóveníu sem fram fór í Serbíu í dag en Serbar höfðu unnið þriggja marka sigur í Slóveníu. Þeir héldu uppteknum hætti í dag og unnu aftur þriggja marka sigur og verða því með á HM á meðan Slóvenar sitja eftir með sárt ennið.

Slóvenar eiga þó enn möguleika á svokölluðu Wildcard sæti og verða að teljast líklegir til að komast þannig á HM.

Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar í Þýskalandi unnu Færeyinga örugglega en einvíginu lauk 67-53 fyrir Þjóðverjum.

Þá áttu Ungverjar ekki í teljandi vandræðum með Ísrael í dag og unnu níu marka sigur, 31-22. Ungverjar unnu einnig fyrri leikinn í Ísrael með einu marki og einvígið því samanlagt með tíu mörkum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×