Handbolti

„Fékk gæsahúð mörgum sinnum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson hefur komið Íslandi á fjórtán stórmót.
Guðmundur Guðmundsson hefur komið Íslandi á fjórtán stórmót. vísir/hulda margrét

Guðmundur Guðmundsson var hæstánægður eftir að Ísland tryggði sér sæti á HM með átta marka sigri á Austurríki, 34-26, í seinni leik liðanna í umspili í dag.

„Ég var mjög sáttur með hvernig leikmennirnir framkvæmdu þetta. Þvílík fagmennska og karakter. Ég var mjög sáttur fyrir utan kannski fyrstu 7-8 mínúturnar í vörninni. Sóknin var góð allan leikinn. Vörnin varð stórkostleg eftir því sem leið á leikinn og það var unun að fylgjast með baráttunni í vörninni. Markvarslan var svo frábær,“ sagði Guðmundur við Vísi eftir leik.

„Nýir menn komu inn á, allir stimpluðu sig inn og settu mark sitt á leikinn. Þannig ég er mjög ánægður með hvernig þetta var framkvæmt. Það er svo mikið í húfi, HM-sæti, og það má ekkert klikka. Menn tóku þetta mjög föstum tökum, voru einbeittir og þá verður niðurstaðan svona.“

Guðmundur segir að frammistaðan í umspilsleikjunum tveimur hafi verið jákvætt framhald af frammistöðu Íslands á EM í janúar.

„Ég verð að segja að þetta er mjög jákvætt. Oft er það þannig að þegar þú stendur þig vel getur næsta verkefni orðið erfitt. En hópurinn var staðráðinn í að standa sig og gera vel. Það er frábært að fylgjast með leikmönnum á æfingum og aðdraganda leikjanna. Svo verð ég að segja að stemmningin var stórkostleg og þakka áhorfendum fyrir geggjaða stemmningu. Maður fékk gæsahúð mörgum sinnum,“ sagði Guðmundur.

Hann hefur nú komið Íslandi á fjórtán stórmót, eitthvað sem hann er mjög hreykinn af.

„Ég er mjög stoltur af því að taka þátt í því. Þetta er einstök tilfinning og ég hlakka rosalega til að fara með liðið á næsta HM. Við erum til alls líklegir, ætlum að halda áfram að vinna, vera einbeittir og mæta sterkir á næsta stórmót,“ sagði Guðmundur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×