Viðskipti innlent

Lík­lega dýrasta klipping Ís­lands­sögunnar

Bjarki Sigurðsson skrifar
Bobby Ågren klippir Bjarna Hedtoft í þættinum Geggjaðar græjur. Klippingin er ein sú dýrasta í Íslandssögunni. 
Bobby Ågren klippir Bjarna Hedtoft í þættinum Geggjaðar græjur. Klippingin er ein sú dýrasta í Íslandssögunni.  Stöð 2

Í dag hafa flestir heyrt um rafmyntir, þá sérstaklega Bitcoin sem er sú vinsælasta í þeim flokki. Árið 2014 var almenningur ekki með mikla vitneskju um þetta framandi tæknifyrirbæri.

Bræðurnir Davíð og Bjarni Hedtoft Reynissynir sáu um að kynna fólk fyrir tækninýjungum í þáttunum Geggjaðar græjur sem sýndir voru á Stöð 2 árið 2014. Í einum þáttanna var umræðuefnið einmitt rafmyntir.

Þeir bræður ræddu meðal annars við Gylfa Magnússon, hagfræðing og fyrrum viðskiptaráðherra, um möguleikann á því að rafmyntir gætu steypt lögeyri þjóða af stalli.

Gylfi taldi að það yrði erfitt fyrir gjaldmiðila á borð við Bitcoin sem hafa óþekkta aðila á bak við sig, að ná flugi. Traustið væri ekki til staðar. 

Dönsk hárgreiðslustofa tók við Bitcoin

Á þessum tíma tók engin verslun á Íslandi á móti Bitcoin sem greiðslu en þeir bræður fundu hárgreiðslustofu í Danmörku sem gerði það. Rakarinn Bobby Ågren, sem rekur stofuna Ruben og Bobby, var á þessum tíma ósáttur með græðgi bankanna og ákvað að treysta á þennan óþekkta gjaldmiðil.

Bobby er forfallinn tækniáhugamaður, þá hefur hann sérstaklega gaman af gamaldags tölvuleikjum. Í dag er ekki lengur hægt að greiða með Bitcoin á stofunni en hægt er að greiða með gömlum tölvuleikjum og leikjatölvum.

Rándýr klipping

Árið 2014 kostaði herraklipping hjá Ruben og Bobby 0,071 Bitcoin sem þá samsvaraði 5.822 króna.

Virði Bitcoin hefur þó aukist gífurlega seinustu ár og er verðið á einni Bitcoin í dag rúmlega sex milljónir króna. Í dag er þá 0,071 Bitcoin virði rúmlega 427 þúsund króna og má fastlega gera ráð fyrir því að þeir bræður hafi borgað fyrir dýrustu klippingu Íslandssögunnar.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.