Dusty lokaði Ljósleiðaradeildinni með sigri á Vallea

Snorri Rafn Hallsson skrifar
dusty vallea

Það var viðeigandi að toppliðin tækjust á í síðasta leik tímabilsins þó Dusty væri búið að tryggja sér sigurinn. Þetta eru einnig liðin sem lentu í fyrsta og öðru sæti á síðasta tímabili og á síðasta Stórmeistaramóti. Dusty vann báða fyrri leikina á tímabilinu 16–10 en nú átti Vallea séns að leika upp á heiðurinn, en þeir hafa verið á virkilega góðu róli í þessum þriðja hring mótsins með innkomu Minidegreez.

Nuke-deildinni lauk ekki í Nuke heldur Inferno eftir að Dusty bannaði Overpass og hafði Dusty betur í hnífalotunni með fjórfaldri fellu frá Eddezennn. Það féll því í hlut Vallea að sækja í fyrri hálfleik en vörn Dusty hélt í skammbyssulotunni. Vallea opnaði næstu lotu en það féll fljótt um sjálft sig þegar Thor felldi fjóra þeirra. Vallea fann hvergi færi sem liðið gatt nýtt sér hvort sem þeir sóttu rólega eða af krafti og ekki vantaði margfaldar fellurnar Dusty megin.

Andleysi einkenndi Vallea framan af á meðan Dusty fóru léttleikandi um kortið, sóttu opnanir og héldu uppi góðum vörnum. Eftir sjö lotur hafði Vallea ekki unnið eina einustu og atkvæðamesti leikmaður Vallea var Spike með þrjár fellur samtals en Vallea komst loks á blað í níundu lotu. Dusty lét það ekki á sig fá og hélt uppteknum hætti með því að raða inn fellum og lotum. Thor var þar fremstur í flokki með 23 fellur eftir 15 lotur en Vallea náði í tvö stig til viðbótar undir lok hálfleiks.

Staða í hálfleik: Dusty 12 – 3 Vallea

Þreföld fella frá Minidegreez tryggði Vallea þeirra fjórðu lotu í leiknum og nældi sér einnig í næstu fjórar. Dusty voru blankir en Vallea komnir til lífs. Beitti Vallea búnaði vel til að hægja á hröðum tilburðum Dusty. Góð endurkoma var í kortunum en brekkan ansi brött.

Dusty fékk loksins stig í síðari hálfleik í tuttugustu og fyrstu lotu og fylgdi því eftir í þeirri næstu með flottri töku á B-svæði. Eftir að Vallea náði að svara keypti Dusty öll þau vopn sem þeir gátu en fjórföld fella Funky slökkti í þeim tilburðum. Varnarleikur Vallea var mun öflugri en sóknin og gátu þeir saxað vel á forskot Dusty. Eftir tuttugu og fimm lotur var staðan 14–11 fyrir Dusty og Thor búinn að rjúfa 30-múrinn. Dusty höfðu skipt sér um kortið framan af hálfleiknum en þegar þeir fóru saman í aðgerðir var leðin greið inn á sprengjusvæðið.

Vallea hélt lífi í leiknum örlítið lengur en Funky og Narfa tókst ekki að aftengja sprengjuna í tuttugustu og áttundu lotu leiksins og Dusty höfðu því betur.

Lokastaða: Dusty 16 – 12 Vallea

Með 19 sigra í 21 leik enda Dusty tímabilið á toppnum með 38 stig en Vallea í því þriðja með 26 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira