Umfjöllun og viðtöl: Breiða­blik – Stjarnan 105-107 | Gríðarleg dramatík þegar Blikar misstu af sæti í úrslitakeppninni

Hjörvar Ólafsson skrifar
Stjarnan getur komið í veg fyrir að Breiðablik komist í úrslitakeppnina.
Stjarnan getur komið í veg fyrir að Breiðablik komist í úrslitakeppnina. Vísir/Bára Dröfn

Breiðablik þarf að bíta í hið margfræaga súra epli að sitja eftir með sárt ennið og fara ekki í úrslitakeppni Subway-deildar karla í körfubolta karla þetta árið.

Þetta varð ljóst eftir 105-107 tap Blika gegn Stjörnunni en liðin áttust við í lokaumferð deildarkeppninnar í Smáranum í Kópavogi í kvöld. 

Það var Robert Eugene Turner III sem tryggði Stjörnunni sigurinn með körfu í þann mund sem laukaflautan gall. Stjarnan hafnar í sjötta sæti deildarinnar og mætir Val í átta liða úrslitum.

Blikar verða hins vegar að gera sér níunda sætið að góðu og horfa á eftir áttunda og síðasta sætinu í úrslitakeppninni í Vesturbæinn til KR-inga.

Pétur Ingvarsson: Meira stolt en svekkelsi

„Vissulega gerist það ekki tæpara og súrara en þetta, að missa af sæti í úrslitakeppni með flautukörfu. Það er eitt skot til eða frá sem verður til þess að árangurinn á tímabilinu telst ekki frábær. 

Þetta er sjötti leikurinn í vetur þar sem við töpum á svona hátt, með minnsta mun, þannig að sigurhlutfallið hefði hæglega getað verið betra hjá okkur," sagði Pétur Ingvarsson, þjálfari Breiðabliks, sem bar höfuðið hátt þrátt fyrir mikil vonbrigði. 

„Við erum nýliðar í deildinni og okkur var spáð næstneðsta sæti deildarinnar síðasta haust. Eftir þá spá misstum við Sinisa Bilic en við þjöppuðum okkur bara saman og erum búnir að búa til hörkulið. Það er frekar stolt í mínum huga þessa stundina en svekkelsi," sagði Pétur enn fremur. 

„Framtíðin er björt hjá Blikum og ég er spenntur fyrir framhaldinu. Ég er nýbúinn að skrifa undir tveggja ára samning og ætla að halda áfram að byggja upp lið sem spilar skemmtilegan og árangursríkan körfubolta," sagði þjálfarinn margreyndi um næsta tímabil. 

Arnar Guðjónsson: Gekk ekki nógu vel að sleppa við meiðsli 

„Við vorum fastir í sjötta sætinu og það var vissulega áskorun að ná upp hungri til þess að leggja allt í verkefnið. Við vorum flatir í upphafi leiks en náðum svo fínum köflum og ég er sáttur við stigin tvö þó svo að spilamennskan hefði klárlega mátt vera betri," sagði Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, sigurreifur. 

„Vörnin lagaðist með innkomu Ragnars Ágústs Nathanaelssonar í fjórða leikhluta og við náðum að kreista fram sigur sem er jákvætt. Það sem er hins vegar neikvætt er að markmiðið að fara meiðslalaus í gengum þennan leik gekk ekki upp," sagði Arnar um leikinn. 

„Ingimundur Orri Jóhannsson meiddist á fingri, Hlynur Elías Bæringsson fékk skurð og Kristján Fannar Ingólfsson högg. Gunnar Ólafsson var svo ekki með vegna meiðsla. 

Gunnar hefði spilað ef þessi leikur hefði verið í úrslitakeppninni og ég held að meiðslin sem komu upp í kvöld haldi mönnum ekki frá í leiknum við Val á þriðjudaginn," sagði hann. 

Af hverju vann Stjarnan?

Í rauninni var það gamla góða hársbreiddin sem skildi liðin að í þessum leik. Jafnt var á öllum tölum en það voru Stjörnumenn sem áttu síðasta orðið. Fínn varnarleikur Stjörnunnar og dass af lukku í lokasókninni skilaði stigunum tveimur.   

Hvað gekk illa?

Síðasta sókn Blika endaði á afar klaufalegan hátt en Everage Lee Richardson var enn að leita sér að skoti þegar skotklukkan rann út. Þá var mistalning í dekkningu á ögurstundu dýrkeypt fyrir Blika.

Hverjir stóðu upp úr?

Það var sárt að frábær frammistaða Hilmars Péturssonar dugði ekki til þess að koma Blikum í úrslitakeppnina. Hilmar skoraði 35 stig, mörg hver eftir glæsileg einstaklingsframtök. Skotnýting hans á öllum vígstöðvum var til fyrirmyndar og þá gaf hann fjórar stoðsendingar. Robert Eugene Turner III kórónaði aftur á móti fínan leik sinn fyrir Stjörnuna með sigurkörfu leiksins. 

Hvað gerist næst?

Blikar eru komnir í sumarfrí eftir grátlegt tap en Stjarnan etur kappi við Val í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar. Fyrsti leikur liðanna fer fram í Origo-höllinni að Hlíðarenda á þriðjudaginn kemur. 

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira