Körfubolti

Haukar tóku Blika og Keflavík vann nágrannaslaginn gegn Njarðvík

Atli Arason skrifar
Daniela Wallen í leik gegn Haukum fyrr á tímabilinu. Keflavík og Haukar unnu bæði leiki sína í kvöld.
Daniela Wallen í leik gegn Haukum fyrr á tímabilinu. Keflavík og Haukar unnu bæði leiki sína í kvöld. Bára Dröfn Kristinsdóttir

Deildarkeppni Subway-deild kvenna er lokið með þremur leikjum. Haukarnir sigruðu Breiðablik í Ólafssal, 74-65 á meðan Keflavík vann erkifjendur í Njarðvík með 10 stigum við Sunnubraut, 72-62.

Lovísa Björt Henningsdóttir, leikmaður Hauka, var nær óstöðvandi gegn Breiðablik en Lovísa gerði 31 stig í sigri liðsins. Lovísa tók einnig fjögur fráköst og gaf eina stoðsendingu og endaði leikinn með 25 framlagspunkta. Hjá Blikum var Isabella Ósk Sigurðardóttir best með 12 stig, 12 fráköst og tvær stoðsendingar sem gera 21 framlagspunkt.

Breiðablik endar deildina í sjöunda og neðsta sæti deildarinnar með 12 stig. Haukar verða hins vegar í þriðja sætinu og mæta Val í undanúrslitum úrslitakeppninnar. Valur vann Fjölni í Grafarvoginum en Fjölniskonur eru deildarmeistarar í ár.

Í Keflavík unnu heimakonur sinn fjórða leik í röð þegar þær tóku Njarðvík með 10 stigum. Eins og stundum áður var Aliyah Collier frábær í liði Njarðvíkur en hún setti niður 34 stig, tók 15 fráköst og gaf fjórar stoðsendingar, 38 framlagspunktar. Daniela Wallen var best í liði Keflavíkur en hún gerði 22 stig ásamt því að taka 17 fráköst og gefa þrjár stoðsendingar sem gerir 29 framlagspunkta.

Njarðvíkingar enda deildina í fjórða sæti og fá deildarmeistara Fjölnis í fyrsta leik úrslitakeppninnar. Það verður hins vegar enginn úrslitakeppni í Keflavík í ár þar sem Keflvíkingar enduðu í fimmta sæti, sex stigum á eftir Njarðvík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×