Viðskipti innlent

Máli ÁTVR gegn Sante og Bjórlandi vísað frá

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
ÁTVR hafði ekki erindi sem erfiði.
ÁTVR hafði ekki erindi sem erfiði. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur vísað málum ÁTVR gegn Sante ehf, Santewines SAS og Bjórlandi vegna smásölu á áfengi frá dómi.

Þetta staðfesta Arnar Sigurðsson, eigandi Sante ehf. og Santewines SAS og Þórgnýr Thoroddsen, eigandi Bjórlands í samtali við fréttastofu.

ÁTVR krafðist þess að félögin myndu hætta smásölu áfengis á Íslandi á grundvelli þess að ÁTVR hefði einkarétt á sölu áfengis hér á landi. Þá krafðist ÁTVR þess einnig að skaðabótaskylda urði viðurkennd vegna meints tjóns sem ríkisfyrirtækið taldi sig hafa orðið fyrir vegna smásölu annara aðila á áfengi í vefverslun.

Sante, Santewines og Bjórland kröfðust þess hins vegar að málunum gegn þeim yrði vísað frá dómi.

Fréttastofa hefur úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í málunum tveimur undir höndum, og segja má að þar fái málatilbúningur ÁTVR á baukinn.

Skorti verulega á að ÁTVR hafi sýnt fram á tjón

Kemst dómurinn meðal annars að sú krafa ÁTVR að Bjórlandi yrði gert að láta af smásölu áfengis í vefverslun sé háð það miklum annmörkum að ekki sé hægt að taka hana fyrir dóm. Var henni því vísað frá.

„Yrði fallist á þessa dómkröfu stefndana er einsýnt að stefnda yrði óheimilt að starfrækja vefverslun, sama undir hvaða nafni hún væri, þar sem áfengi er væri selt til íslenskra neytenda til eigin nota í gegnum lager á erlendri grunu, þar sem neytandinn stæði sjálfur að innflutningi áfengis hingað til lands, sem er þó heimilt samkvæmt lögum,“ segir í úrskurðinum.

Þá kemst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að ÁTVR hafi ekki upplýst nánar eða lagt fram gögn um það tjón sem fyrirtækið taldi sig hafa orðið fyrir vegna vefverslunar annarra aðila á áfengi, ekki hafi verið sýnt fram á að kaup í vefverslun annarra aðila hafi komið í stað kaupa í ÁTVR, en ekki verið til viðbótar kaupum í ÁTVR.

Deilt var um rétt til að selja áfengi í smásölu.Vísir/Vilhelm

Telur dómurinn í báðum tilvikum að verulega skorti á að þeim skilyrðum sé fullnægt sem gerð eru til sönnunar á tilvist tjóns. Af þeim sökum telur dómurinn að ÁTVR hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um viðurkenningu á skaðabótaskyldu.

Alls þarf ÁTVR að greiða Bjórlandi 950 þúsund krónur í málskostnað og Sante og Santewines 1,65 milljónir í málskostnað.

Í tilkynningu sem send var á fjölmiða af hálfu Sante.is segir að málarekstur ÁTVR hafi verið erindisleysa og það hafi úrskurður héraðsdóms staðfest.

Í tilkynningunni segir Birgir Már Björnsson, lögmaður Sante.is, að niðurstaða héraðsdóms komi honum ekki á óvart, hún staðfesti að öllu leyti það sem haldið var fram fyrir dómi um að ÁTVR hafi tekið sér vald sem stofnunin hefur ekki. Hann telji jafnframt að fá dæmi séu í íslenskri réttarsögu um viðlíka vísvitandi heimildarskort stjórnvalds í eigin málarekstri fyrir dómstólum. Hann vænti þess að ÁTVR láti nú gott heita í málaskaki gegn Sante.is og fagni þess í stað nútímalegri samkeppni, neytendum til heilla.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×