Skoðun

Það sem vantar í um­ræðuna

Drífa Snædal skrifar

Hvað finnst fulltrúum Samtaka atvinnulífsins vera eðlilegur launamunur? Ef ég væri í hlutverki fréttaspyrils myndi ég spyrja þessarar spurningar. Á hverju ári fáum við fréttir af ofurlaunum og handritið er í raun ritað fyrirfram. Við í verkalýðshreyfingunni bendum á ranglætið og setjum í samhengi við almenn laun í landinu og kjarasamninga og á móti ómar svo árvissi söngurinn um ábyrgð, „að hlutfallslega hækkunin sé ekki svo mikil“ og fleiri kreistar réttlætingar í svipuðum dúr. „Hlutfallslega“ er þarna lykilorð. 10% hækkun á 400 þúsund króna laun eru 40 þúsund krónur en 5% hækkun á fjórar milljónir eru 200 þúsund krónur. Minni hlutfallsleg hækkun á ofurlaun getur munað góðri utanlandsferð. Það sem eftir stendur í umræðunni er; hver á launamunurinn að vera? Fyrir hvernig ábyrgð og störf á að greiða meira og hversu mikið?

Þegar umræða síðustu áratuga er rakin kemur í ljós að þolinmæði okkar fyrir misskiptingu hefur aukist stórkostlega. Um miðja síðustu öld var til umræðu að enginn fengi meira en tvöföld laun þess lægst launaða. Síðan þróaðist umræðan yfir í að þreföld laun væru eðlilegur munur og síðan fjórföld. Nú erum við svo komin á stað þar sem engar skynsamlegar reglur virðast gilda um launamun. Sjálf hef ég alltaf verið hrifin af þeirri hugmynd að þau sem eru með hæstar tekjur hafi beinan hag af því að hækka lægstu laun. Að skilyrða hæstu laun við þau lægstu. Ágætis byrjun væri að ríkið setti það inn í eigendastefnu sína hvert ásættanlegt launahlutfall væri innan þeirrar starfsemi sem við eigum öll. Í eigendastefnunni núna stendur: „Laun séu hófleg, samkeppnishæf, en ekki leiðandi og taki mið af opinberu eignarhaldi“.

Ég legg til viðbótina: „Laun og hlunnindi æðstu stjórnenda skuli aldrei vera hærri en ferföld lágmarkslaun verkafólks samkvæmt almennum kjarasamningum“. Þetta yrði stefnumótandi og myndi losa okkur út úr andlausri árvissri umræðu um ofurlaun. Almenni markaðurinn ætti svo auðvitað að tileinka sér þetta sömuleiðis. Í raun er ekki eftir neinu að bíða þar.

Góða helgi,

Drífa

Höfundur er forseti ASÍ.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×