Skoðun

Afsakanir fyrir aðgerðaleysi

Kristrún Frostadóttir skrifar

Það má aldrei nota loftslagsmálin og loftslagsmarkmið sem afsökun fyrir því að skilja eftir fólk í viðkvæmri stöðu.

Það gerði formaður fjárlaganefndar í viðtali í gær, þegar hún skýldi sér á bak við loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar til að réttlæta aðgerðaleysi gagnvart heimilum sem súpa nú seyðið af gríðarlegum verðhækkunum, hækkun verðs á bensín og dísel, hækkun húsnæðiskostnaðar, 6,2 prósenta verðbólgu.

Við höfum verk að vinna í loftslagsmálum og orkuskiptum. En það mun aldrei nást sátt í samfélaginu um alvöru loftslagsaðgerðir nema tekjulægstu og viðkvæmustu hópunum sé hlíft.

Nágrannalöndin hafa nú þegar kynnt aðgerðapakka til að mæta lífskjarakreppu heimilanna sem nú blasir við vegna hækkandi hrávöruverðs og húsnæðisverðshækkana. Enn og aftur eru íslensk stjórnvöld eftir á. Og nú skýla stjórnarliðar sér á bakvið loftslagsaðgerðir.

Það er hægt að styðja við heimilin og vinna að loftslagsmálum. Svíar hafa kynnt aðgerðir til að draga úr bensínkostnaði tímabundið samhliða auknum hvötum til að kaupa rafmagnsbíla.

Hverjir eru það í landinu sem hafa kost á því að kaupa sér nýjan rafbíl fyrir margar milljónir króna? Það er ekki ungt fólk eða öryrkjar. Það er ekki fólk undir meðaltekjum.

Hverjir eru það aftur á móti sem bera ábyrgð á því að lítill áhugi er meðal ferðamanna að nýta sér rafbíla hér á landi – og þess vegna flæða bensín og dísel bílar inn á markað fyrir notaða bíla? Hverjir eru það sem bera ábyrgð á því að erfitt reynist fyrir fólk í dreifbýli að taka þátt í orkuskiptum? Jú, það eru stjórnvöld sem hafa ekki staðið sig í stykkinu þegar það kemur að því að byggja hér upp innviði fyrir rafbíla um allt land.

Ég hvet ríkisstjórnina til að þess að nýta ekki málaflokk loftslagsmála sem skálkaskjól fyrir aðgerðaleysi í efnahagsmálum.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.