Neytendur

Elds­neytis­verð muni sveiflast mikið á næstu vikum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmdastjóri N1.
Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmdastjóri N1. N1

Framkvæmdastjóri N1 telur líklegt að miklar sveiflur verði í eldsneytisverði á næstu dögum og vikum. Bensínverð fór yfir 300 krónur á lítrann í dag hjá flestum stöðvum á höfuðborgarsvæðinu og annars staðar á landinu. 

Bensínverð hefu hækkað umtalsvert síðustu vikurnar, ekki síst í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu og hækkandi heimsmarkaðsverðs. 

„Mér finnst ekkert ólíklegt að á næstu dögum og vikum munum við sjá miklar sveiflur í heimsmarkaðsverði á eldsneyti, bæði upp og niður. Á meðan þetta óhugnanlega, ömurlega stríð ríkir þá er hættan á að eldsneytisverð muni frekar fara upp,“ segir Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmdastjóri N1, sem ræddi hækkandi eldsneytisverð í Reykjavík sídegis á Bylgjunni fyrr í dag. 

Markaðurinn leiðrétti sig hratt ljúki stríðinu

Hann segir þennan markað hér á landi líka talsverða spákaupmennsku. Ólíklegt sé að á Vesturlöndum sé nokkurs staðar skortur á eldsneyti úti á bensínstöðvum. 

„Menn eru að lesa fréttir og sjá fyrir sér skort í Bandaríkjunum og í Evrópu til lengri tíma litið ef ástandið varir áfram. Hins vegar held ég að ef að menn ljúka þessu ömurlega stríði þá muni markaðurinn leiðrétta sig hratt,“ segir Hinrik. 

Birgðarstaða á landinu er nokkuð góð sem Hinrik segir að miklu leiti mega rekja til þess að allt eldsneyti, alla vega það sem N1 selur, sé keypt frá Noregi. Flutningsleið olíunnar sé þar að auki stutt sem hafi áhrif á verðið. Heimsmarkaðsverð hafi þá hækkað mun meira en söluverð hér á landi. 

„Við getum bent á það að núna í marsmánuði, frá meðalverði febrúar til dagsins í dag hefur heimsmarkaðsverð á dísilolíu hækkað um sjötíu prósent. Söluverð okkar hefur hækkað um ellefu eða tólf prósent, ef ég man rétt, á sama tíma þannig að það er ekki svo,“ segir Hinrik. 

Óttast að markaðurinn bregðist ýkt við

„Við höfum reynt að takmarka okkar hækkanir. Við skynjum ólgu landsmanna og ótta landsmanna við hækkanir almennt. Ég held hins vegar að það sé ekki fylgst með nokkrum markaði á Íslandi eins og eldsneytisverði. Okkar verð hækka og lækka í takt við heimsmarkaðsverð.“

Starfsmenn N1 fari yfir heimsmarkaðsverð oft á dag til að fylgjast með stöðunni og bregðast eins hratt við og hægt er.

„Það er enginn hagur í því fyrir okkur að eldsneytisverð rjúki upp. Okkar hagur er að markaðirnir séu stöðugir og krónan helst stöðug. Það er fyrir okkur hið fullkomna ástand. Í dag var markaðurinn í lækkunum sem er jákvætt og vonandi heldur það áfram. En ég óttast það að markaðurinn muni bregðast mjög ýkt við öllum fréttum, bæði upp og niður,“ segir Hinrik. 


Tengdar fréttir

Viðlíka verðhækkun í Evrópu ekki sést í manna minnum

„Þetta er auðvitað skelfileg verðþróun. Við sjáum það bara að á tíu dögum hefur verðið hækkað um 20 kr. til neytenda á útsölustöðum og það sér ekki endilega fyrir endann á þessu þannig að við vitum ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér.“

Þróun hrávöruverðs varpar ljósi á mikilvægi raforkuframleiðslu á Íslandi

Stórkostlegar hækkanir á hrávöruverði eru áminning um mikilvægi raforkuframleiðslu hér á landi og þær varpa jafnframt ljósi á það hversu mikill ávinningur felst í því að framleiða íslenskt eldsneyti sem knýr farartæki. Þetta segir Ketill Sigurjónsson, sérfræðingur í orkumálum og framkvæmdastjóri vindorkufyrirtækisins Zephyr Iceland.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×