Handbolti

Óli Stef aftur í þjálfun

Sindri Sverrisson skrifar
Ólafur Stefánsson hefur ákveðið að snúa sér aftur að þjálfun og í þetta sinn í Þýskalandi.
Ólafur Stefánsson hefur ákveðið að snúa sér aftur að þjálfun og í þetta sinn í Þýskalandi. Mynd/Daníel

Handboltagoðsögnin Ólafur Stefánsson hefur ákveðið að snúa sér aftur að þjálfun. Hann hefur verið ráðinn til starfa í Þýskalandi.

Ólafur hefur samþykkt að gerast aðstoðarþjálfari Erlangen sem situr í 13. sæti efstu deildar karla í Þýskalandi. Samningurinn gildir fram á sumar, samkvæmt heimildum íþróttadeildar.

Ólafur heldur til Þýskalands á föstudag en hann var í heimsókn hjá félaginu á dögunum þar sem í ljós kom að hans hugmyndir færu saman við hugmyndir spænsks þjálfara liðsins, Raúls Alonso.

Staðan verður tekin í lok leiktíðar og þá er ekki útilokað að Ólafur muni alfarið taka við þjálfun liðsins í sumar.

Alonso er íþróttastjóri Erlangen en tók við sem aðalþjálfari liðsins eftir að Michael Haas var sagt upp í byrjun árs.

Ólafur hefur ekki þjálfað félagslið í meistaraflokki frá því að hann stýrði karlaliði Vals um skamman tíma tímabilið 2013-14. Þá var hann aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins á árunum 2015-16.

Næsti leikur Erlangen er á heimavelli á sunnudaginn, gegn Lübbecke í þýsku 1. deildinni.

Erlangen er jafnframt komið í undanúrslit þýsku bikarkeppninnar en mætir þar Ómari Ingi Magnússyni, Gísla Þorgeiri Kristjánssyni og félögum í Magdeburg, 23. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×