Bílar

BMW iX - Sannur BMW

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
BMW iX.
BMW iX.

BMW iX er stærsti rafdrifni bíllinn frá BMW hingað til. Um er að ræða fimm manna rafjeppling, þar sem mikið hefur verið lagt upp úr upplifun við hönnun. Upplifunin er BMW út í gegn, sem er áhugavert.

Útlit

BMW iX er smekklegur að mati blaðamanns. Þá er sérstaklega fágaður vangasvipur á bílnum, á meðan að framendinn kann að skipta fólki í tvo hópa. Grillið, sem er með stærsta móti hefur vakið mikla athygli og er alls ekki allra. Ofanritaður er þó ekki meðal þeirra sem líta á það sem ákveðin helgispjöll að breyta hinu sígilda nýrna útliti BMW, og er nokkuð hrifinn.

Vangasvipurinn á BMW iX.

Framljósin eru vel heppnuð og afturendinn ágætur. Fram- og afturendarnir passa vel saman en virðast ekki alveg eiga heima á sama bíl og hliðarsvipurinn sýnir. Þá er iX einn af þessum bílum sem eru þónokkuð fallegri í ákveðnum lit en öðrum.

Aksturseiginleikar

Aksturseiginleikar BMW iX eru klárlega það merkilegasta sem bíllinn hefur fram að færa, sem er gott, þeir skipta talsverðu máli.

Hröðunin er frábær og bíllinn er enga stund að hypja sig af rauðu ljósi ef sá gállinn er á ökumanni. Þá lætur hann afar vel af stjórn og fer nákvæmlega þangað sem honum er beint, nánast sama á hvaða ferð það er gert.

Hér má sjá auglýsingu fyrir rafbíla BMW sem sýnd var í auglýsingahléi á SuperBowl í ár.

Reynsluaksturinn fór að hluta til fram í þæfingssnjó og þá var gaman að finna að iX í Sport stillingu leyfði smá skrans áður en tölvurnar á bak við skriðvörnina gripu bílinn og komu í veg fyrir vandræðaleg augnablik fyrir ökumann. Hann hleypti manni nógu langt til að það væri gaman en ekki svo langt að það yrði ógnvekjandi.

Innréttingin í BMW iX er fáanleg í þessum ljósbláa lit.

Notagildi og innra rými

Bíllinn er nokkuð stór og farþegarýmið afar rúmgott. Framsætin faðma ökumann og farþega og plássið aftur í er býsna gott. Það er greinilegt að rými fyrir farþega hefur fengið forgang fram yfir farangursrými enda er skottið 500 lítrar sem er svipað og Kia EV6 sem er minni bíll og Volkswagen ID.4 býður upp á 543 lítra skott og aftur, þar er minni bíll á ferð.

Skottið á BMW iX.

Mjög gott er að ganga um bílinn og hann er smekklega samsettur. Hönnunin er fagurfræðilega mjög góð en höfðar ekki til blaðamanns. Það er einhver tilfinning sem fylgir opna fótarýminu á milli ökumanns og farþega í framsæti sem í huga þess sem hér ritar dregur úr tilfinningunni að maður sé að aka um á þýskum lúxusbíl, sem er synd, því það er nákvæmlega það sem maður er að gera. Að öðru leyti er hönnun innra rýmisins góð, hvað notagildi varðar, það er auðvelt að átta sig og afþreyingarkerfið frábært.

BMW iX í hleðslu.

Drægni og hleðsla

BMW iX er fáanlegur með 70 og 100kWh rafhlöðu, minni rafhlaðan skilar 326 hestöflum og sá bíll er með uppgefna drægni upp á 425 km. Stærri rafhlaðan býður upp á 523 hestöfl og er með uppgefna 630 km drægni. Báðar útgáfur eru augljóslega fjórhjóladrifnar.

Þá getur BMW iX xDrive50, sá með 100 kWh rafhlöðunni tekið inn á sig 200 kW í hraðhleðslu og í 11 kW heimahleðslu er hann rúmar 11 klukkustundir að hlaða sig ef hann er alveg tómur. Hann er 4,8 sekúndur í 100 km/klst úr kyrrstöðu.

Á meðan BMW iX xDrive 40, þessi með 70 kWh rafhlöðunni getur tekið inn á sig 150 kW í hraðhleðslu og er tæpar átta klukkustundir að hlaða sig á 11 kW heimahleðslu. Hann er 6,1 sekúndu úr kyrrstöðu í 100km/klst.

Hér má sjá að miðjustokkurinn nær ekki alla leið fram í innréttingu og því er opið á milli fótarýmis farþega og ökumanns.

Verð og samantekt

BMW iX kostar frá 10.990.000 kr. fyrir bíl með minni rafhlöðunni og upp í frá 13.990.000 kr. fyrir bíl með stærri rafhlöðunni. Það er því ekki beinn samanburður við aðra rafjepplinga sem hefur verið fjallað um nýlega hér á Vísi. Þar má nefna bíla á borð við Ford Mustang Mach-E sem kostar frá 6.890.000, Tesla Model Y of Kia EV6 sem eru á svipuðu reiki of Mustang-inn og svo Volkswagen ID.4 og Skoda Enyaq sem eru aftur ódýrari.

Staðreyndin er að með BMW iX er verið að kaupa þýskan lúxus rafjeppling og aksturseiginleika sem eru framúrskarandi. Hann er nokkuð stærri en þessir upptöldu bílar sem eru allir þónokkuð ódýrari. En BMW iX er sannur BMW að öllu leyti, fyrir utan það sem íhaldssamt fólk kann að nefna á borð við grillið og að hann er hreinn rafbíll. Það er vel gert hjá BMW að mati blaðamanns að halda gildunum og það er mikið hrós að kalla iX sannan BMW.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×