Skoðun

Er ung­lingurinn þinn með líkama upp á tíu, sjöu eða kannski bara fjarka?

Rannveig Ernudóttir skrifar

Hvað er pólitíkin að skipta sér af?

Nýverið olli tillaga ungmenna í Reykjavíkurráði miklu fjaðrafoki, um að gera sund að valfagi fyrir 9. og 10. bekk. Tillagan var lögð fram af Elísabetu Láru Gunnarsdóttur, fulltrúa í ungmennaráði Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíðar og var vel rökstudd með vísun í að nemendur séu að öllum líkindum þegar búnir að ná tökum á sundi og vilji frekar nota tíma sinn í t.d. annars konar hreyfingu. Ekki síst vakti tillagan athygli á færni eða getu og líðan barna og ungmenna í íþrótta- og sundkennslu grunnskólanna.

Viðbrögðin við samþykkt þeirrar tillögu komu á óvart, sérstaklega grein fráfarandi formanns Kennarasambands Íslands, þar heldur hann því fram að pólitísk nefnd í sveitarfélagi eigi nú ekki að vera með puttana í ákvörðunum um hvað sé kennt í skólum og hvað ekki. Þessi viðbrögð valda vonbrigðum, og slá sérstakan tón sem kallar á viðbrögð Ég velti fyrir mér hvort formaðurinn átti sig ekki á því hvernig stjórnvöld taka ákvörðun? Hvert ferlið er í því að komast að niðurstöðu eða hvert hlutverk stjórnmálanna er í þessu samhengi. Reyndar gerir hann að því skóna að í ferlinu sé auk þess mikil óvirðing gagnvart sérfræðingum og þeirra fagþekkingu, en því er ég ósammála.

Til að byrja með, þá er skóla- og frístundaráð fagráð sem samsett er af kjörnum fulltrúum en einnig breiðum hópi áheyrnarfulltrúa sem telur sérfræðinga og hagsmunaaðila. Ráðið er því full fært um að taka upplýsta afstöðu, hér má lesa betur um ráðið, hlutverk þess og fulltrúa. Ráðið tekur því ákvarðanir út frá gögnum og upplýsingum frá sérfræðingum, en tryggir jafnframt aðkomu almennings að ákvarðanatökunni. Það er hlutverk stjórnmálanna að samþætta sérþekkingu og ólík blæbrigði daglegs lífs og að stuðla að fjölbreytileika í samfélaginu. Allir þessir þættir geta hins vegar stangast á.

Ungmennaráð Reykjavíkurborgar eru mikilvægar raddir í stjórnsýslunni

Í síðustu viku fór fram borgarstjórnarfundur með fulltrúum ungmennaráðanna. Þar gafst ungmennunum tækifæri til þess að leggja fram tillögur sínar. Ungmennin móta tillöguna og semja greinagerð með henni, flytja svo ræðu á fundinum þar sem þau leggja hana svo fram.

Þessir fundir eru í miklu uppáhaldi hjá mér því ég tel það afar mikilvægt að þau fái þetta tækifæri til að hafa bein lýðræðisleg áhrif á starfsemi borgarinnar, sem er jú líka borgin þeirra. Þá á borgarstjórn líka að hlusta og afgreiða tillögur ungmennanna. Flestum okkar er mikið í mun að virða barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, en ein af greinum hans, 12. gr., Virðing fyrir skoðunum barna, styður við barnalýðræði í stjórnsýslunni, sem birtist svo vel í fundum ungmennaráðanna með borgarstjórn. Barnasáttmálinn er meira að segja hluti af námi barna í skólum landsins, undir leiðsögn sérfræðinga, eðlilega.

Aðrir sérfræðingar og fleiri raddir

Annað sem mikilvægt er að huga að þegar ákvarðanir eru teknar af stjórnvaldi, er að meta aðra sérþekkingu úr mismunandi áttum, eins og t.d. þeirra sem eru sérfræðingar í eigin lífi, í þessu tilfelli ungmennin sjálf og svo foreldrar eða forsjáraðilar þeirra. Aðkoma annarrar sérþekkingar skiptir einnig máli hér, það eru þá sérfræðingar ýmissa hagsmunasamtaka og félagasamtaka, á borð við Tabú, Samtök hinsegin fólks á Íslandi, Samtök um líkamsvirðingu, Hugrún geðfræðslufélag o.fl. Þrátt fyrir að sjónarmið þeirra séu önnur en sérfræðingar í kennslu hafa til grundvallar, eru þessi sjónarmið mikilvægur þáttur í þeim þjóðfélagslegum breytingum sem við stöndum í í dag.

Niðurstaðan verður að því vera sú að námsgreininni sé ekki fórnað, en að hún aðlagi sig að nýjum áherslum. Sérþekking og reynsla mismunandi sérfræðinga getur stangast á við hvert annað, sem leiðir okkur að þeim kjarna sem áður var nefndur, að stjórnvaldið þarf að komast að niðurstöðu með tilliti til ólíkra þarfa þeirra sem ákvörðunin varðar, með því að meta þarfir, sérþekkingu, nýjar leiðir og áhrifin heilt yfir.

Hreyfing er mikilvæg, en hvað með hæfniviðmið og einkunnagjöf í þeim fögum?

Sundkennslan sem formaðurinn gerði m.a. að umræðuefni sínu í grein sinni fékk vandaða afgreiðslu út frá ólíkum sjónarhornum. Hún er á grundvelli lýðræðisþátttöku ungmenna, hún var skoðuð af sérfræðingum á skóla- og frístundasviði sem mátu kosti hennar og galla. Þá tóku kjörnu fulltrúarnir aftur við henni og mátu hana út frá áðurnefndum þáttum en einni út frá áliti annarra sérfræðinga eins og Umboðsmanni barna. Benda má á að umboðsmaður barna hefur einmitt sent bréf til mennta- og menningarmálaráðherra um hæfniviðmiðin í sundi þar sem segir m.a.:

,,Hæfniviðmið í sundi eru langt yfir það sem nauðsynlegt má telja til að nemendur geti stundað sund sem líkamsrækt á öruggan hátt að loknum grunnskóla.”

Rétt er að árétta það sem margir virðast vera að misskilja, það er ekki verið að leggja sundkennslu niður á unglingastigi enda breytingar á aðalnámskrá ekki í valdi ráðsins. Heldur verið að hafa áhrif á og stýra því hvernig kennslan fari fram, útfrá hæfniviðmiðunum.

Sjálf er ég á því að tilefni sé til að hvort tveggja endurskoða sundkennsluna og hæfniviðmiðin út frá sjónarmiðum um líkamsvirðingu, hinseginleikans og getu (ableisma) einstaklingsins, um það skrifaði ég þessa grein, þar sem ég velti fyrir mér markmiðunum með íþrótta- og sundkennslu.

Það var því sérstaklega ánægjulegt að sjá í gær tillögu Núma Hrafns Baldurssonar, fulltrúa ungmennaráðs Laugardals, Háaleitis og Bústaða:

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela skóla- og frístundasviði að innleiða vinnueinkunn í íþróttum í stað núverandi einkunnarkerfis í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Lagt er til að breytingarnar taki gildi eigi síðar en á vorönn 2023.

Númi Hrafn rökstuddi mál sitt með því að vinnueinkunn tæki tillit til mismunandi getu nemenda, t.d. þeirra sem eru með astma, veikindi eða einhverja fötlun. Hún muni stuðla að auknu jafnrétti í íþróttakennslu fyrir einstaklinga með mismunandi getu og að þessi breytta einkunnagjöf muni, frekar en núverandi einkunnagjöf, stuðla að aukinni heilsueflingu sem og áhuga nemenda á að finna sig í íþróttum. Ég tek heilshugar undir með Núma Hrafni sem segir að það sé sannarlega tilefni til að gera breytingu á þessu fyrirkomulagi.

Hér er ekki verið að hafna mikilvægi íþróttakennslunnar, eða hreyfingar yfir höfuð. Heldur að krakkarnir hafi jákvæða upplifun af hreyfinu sem er mun líklegri til að hvetja þau til hreyfingar og heilsueflingar en óraunhæf viðmið. Eru krakkarnir ekki sjálfir sérfræðingar í því hvað virki á þau?

Hvernig breytum við þessu?

Því miður getur borgarstjórn hins vegar ekki breytt þessu, því þessi breyting þarf að koma frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. En tillögunni var vísað inn til skóla- og frístundaráðs, sem mun reyna finna henni farveg. Einnig voru ungmennin hvött til þess að beina tillögunni að ráðuneytinu og láta í sér heyra. Ég vona að þau geri það, því raddir þeirra skipta máli og gefa okkur fullorðna fólkinu oft aðra sýn á hlutina. Það stakk mig t.d. nokkuð illa þegar ég ræddi þessa tillögu við dóttur mína, sem er í 8. bekk, að hún upplifir einkunnagjöf í íþróttum eins og að fá einkunn fyrir líkama sinn. Þessi upplifun er raunveruleg og það á að taka mark á henni eins og mörgu öðru sem ungmenni og börn beina sjónum okkar að. Það er hlutverk nefnda og ráða í sveitarfélögum að heyra, sjá og taka tillit til þessara mismunandi radda og sjónarhorna

Ég kalla persónulega svo eftir því að einmitt sérfræðingar, bæði í faginu sjálfu en einnig aðrir, t.d. félagsfræðingar, tómstunda- og félagsmálafræðingar, þroskaþjálfar o.fl. taki hæfniviðmiðin í íþrótta- og sundkennslu, sem og líka einkunnagjöfina, til endurskoðunar. Á meðan ég sem stjórnmálamanneskja ætla ekki að gera það (þótt ég sé reyndar líka sérfræðingur á sviðinu). Ég kalla eftir nýjum hæfniviðmiðum, því þar erum við formaður Kennarasambandsins nefnilega sammála. Það er óhjákvæmilegt og tímabært að ræða fyrirkomulag skólasundsins, sem og reyndar að mínu mati, íþróttakennslunnar.

Höfundur er 1. varaborgarfulltrúi Pírata



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×