Skoðun

Sögulegt mikilvægi þess að Sólveig Anna verði næsti formaður Eflingar!

Júlíus Valdimarsson skrifar

Flestallir Íslendingar vita að með kosningu Sólveigar Önnu sem formanns Eflingar 2018 hófust nýir tímar í sögu verkalýðshreyfingarinnar og það kom „Vor í Verkó“! Nýleg saga segir okkur að með þessum tímamótum hófst bylting sem þegar hefur náð þeim árangri að að vekja þann sofandi risa sem Efling var orðin að og endurvekja félagið sem forystuafl í verkalýðsbaráttunni eins og forveri þess var undir nafni Verkamannafélagsins Dagsbrúnar fram yfir miðja síðustu öld.

Svefnpillan sem svæfði hreyfinguna þessum langa svefni var gefin með samningsgerð verkalýðsfélaganna um stofnun almennu lífeyrissjóðina í maí 1969. Í þessum samningum gáfu verkalýðsfélagfélögin eftir upphaflega kröfu sína um að verkafólk skyldi hafa stjórn á sínum eigin sjóðum í skiptum fyrir jafna aðild að stjórn lífeyrissjóðanna á við atvinnurekendur.

Með þessum afdrifaríku samningum voru örlögin ráðin.

Verkalýðshreyfingin steig þarna sitt fyrsta skref í þá átt að breytast úr baráttusamtökum með hagsmuni verkafólksins að leiðarljósi yfir í að verða einn af aðaleigendum fyrirtækjanna, þessara sömu fyrirtækja og verkalýðsfélögin þurftu að semja við og berjast þannig sífellt við sinn eigin skugga við samningaborðið.

Ég tók þátt í samningunum um lífeyrissjóðina 1969, þá 23ja ára gamall og nýorðinn framkvæmdastjóri Vinnumálasambands samvinnufélaganna, sem var samningsaðili við verkalýðsfélögin fyrir hönd SÍS – Sambands íslenskra samvinnufélaga og dótturfélaga þess, sem og fyrir hönd kaupfélaganna og atvinnureksturs á vegum þeirra um allt land.

Ég var upplýstur um það þegar almennu lífeyrissjóðirnir héldu upp á 50 ára afmæli sitt 2019 að ég væri eini núlifandi fulltrúi atvinnurekenda sem hefðu skrifað upp á þennan samning.

Af þessum ástæðum get ég upplýst frá fyrstu hendi að sú sögufölsun sem höfð hefur verið eftir Gylfa Arnbjörnssyni og fleirum í gegnum tíðina að verkalýðsfélögin hefðu samið um aðild atvinnurekenda að stjórnum lífeyrissjóðanna, vegna færni þeirra og þekkinar á fjármálum sem verkalýðsfélögin skorti, er einfaldlega ekki sönn.

Verkalýðsfélögin settu fram skýra kröfu í samningunum 1969 um að verkafólkið hefði fulla stjórn yfir lífeyrisssjóðunum og fjármagni þeirra, enda höfðu verkalýðsfélögin ákveðið í þessum samningum að setja ekki fram neinar launakröfur en semja þess í stað um lífeyrissjóði í þágu félagsmanna sinna.

Helsti talsmaður verkalýðsfélaganna og baráttumaður fyrir þessari kröfu var Eðvarð Sigurðsson, formaður verkamannafélagsins Dagsbrúnar eins og félagið hét þá og er forveri Eflingar. Eðvarð var gegnheill maður í verkalýðsbaráttunni auk þess að vera ógleymanlegur mannvinur og húmanisti. Hann útskýrði á sinn rólega og rökfasta hátt að þegar atvinnurekendur hefðu samið við verkalýðsfélögin um sjóðina í stað launahækkana þá þýddi það að þeir afsöluðu þesssu fjármagni í hendur verkalýðsfélaganna og félagsmanna þeirra sem ættu að sjá um ráðstöfun þess enda sjóðirnir ætlaðir í þágu þeirra.

Mér eru sérstaklega minnistæð orð Eðvarðs Sigurðssonar sem hann lét falla í þessu sambandi í hita leiksins á göngunum þar sem samningarnir fóru fram. Þá sagði Eðvarð í heyranda hljóði og var mikið niðri fyrir: „Ef það er eitthvað atriði sem ég mun aldrei gefa eftir í þessum samningum þá er það krafan um að lífeyrissjóðirnir verði undir stjórn verkalýðsfélaganna.“

Samningarnir voru langir og strangir og ég veit ekki hvað endanlega gerðist innan stóru samninganefndar ASÍ þar þar sem öll verkalýðsfélögin tóku þátt, en svo fór að lokum að samkomulag náðist um að fjöldi stjórnarmanna i lífeyrissjóðunum yrði jafn eins og raunin varð þannig að viðhorf Eðvarðs hefur þar verið borið ofurliði.“

Ég nefni þennan pistil minn; „Sögulegt mikilvægi þess að Sólveig Anna verði næsti formaður Eflingar.“ Skýringin á því að ég staðhæfi um þetta „sögulega mikilvægi“ er að í Sólveigu Önnu sé ég þann eldmóð og baráttustyrk sem maður skynjaði hjá Eðvarði og ýmsum öðrum af þeim baráttujöxlum verkalýðshreyfingarinnar sem ég kynntist í starfi mínu fyrir Vinnumálasambandið fyrr á árum. Eins og ég nefndi í upphafi tókst henni í formannstíð sinni eftir kosningarnar í Eflingu 2018 ásamt harðsnúnum félagsmönnum Eflingar að snúa leiknum við og gera félagið að raunverulegu baráttutæki fyrir hagsmunum í þágu félagsfólksins. Ef það var nauðsynlegt 2018 þá er sú nauðsyn jafnvel enn brýnni núna.

Ég hvet því félagsfólk Eflingar að taka þátt í yfirstandandi kosningum innan félagsins og kjósa Baráttulistann X-B!!



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×