Skoðun

Tölum um sjálf­bærni á manna­máli

Friðrik Larsen skrifar

Aðilar innan orkugeirans skilja tungutakið sem er notað í tengslum við orkuskiptin en það er yfirþyrmandi fyrir neytendur að skilja um hvað orkuskiptin snúast. Í grunninn snúast þau um að fara úr því að nota jarðefnaeldsneyti yfir í sjálfbæra eða græna orkugjafa. Hvað þýðir það t.d. að eitthvað sé grænt? Hvað er sjálfbærni og hvað er samfélagsleg ábyrgð? Þetta eru hugtök sem skiljast ekki endilega þegar við förum út úr stofnunum og erum ekki lengur að tala við sérfræðinga. Hvernig getum við hjálpað almenningi, neytandanum sem kýs með veskinu, að skilja?

Einstaklingar innan orkugeirans eru margir hverjir sérhæfðir um efni sem kallar á sértækan orðaforða. Við sem störfum og hrærumst innan orkugeirans eigum það til að gera ráð fyrir að almennir neytendur skilji okkar orðaforða á sama hátt og við sérfræðingarnir gerum. Sannleikurinn er sá að það er ekki þannig. Orð eru bara orð þangað til að við hjálpum fólki að tengja við þau og skilja þau. Þá á ég við að einstaklingar skilji ekki aðeins orðin sjálf heldur skilji hvernig orðið er að fara að hafa áhrif á þá. Sem dæmi, hvað þýðir það fyrir neytendur að vita að einhver vara er „grænni“ en vara samkeppnisaðilans? Takist að koma neytendum í skilning um hvað felist í svona þáttum, því líklegar er að orkuskiptin gangi hraðar.

Við viljum fá almenning til að fylgja okkur en sannleikurinn er sá það gera það fáir fyrr en það hefur áhrif á budduna. Því eru reglugerðir oft árangursríkasta leiðin til að fá fram þá hegðun sem við viljum helst frá neytendum. En, að breyta hegðun neytenda er stórmál og við vitum það líklega flest að breytingum í formi reglugerða er tekið misvel. Það getur því breytt heilmiklu að passa upp á að eiga einnig virk samskipti við neytendur og tala á þann hátt að neytendur skilji betur reglugerðir og tilgang þeirra. Þetta er best gert eftir lögmálum markaðsfræða og vörumerkjastjórnunar. Þannig hjálpum við almennum neytendum að tengja við og skilja þær reglugerðir sem settar hafa verið. Reglugerðunum er tekið opnari örmum og allt þetta hjálpar til við að breyta hegðun fólks.

Frá því að ég hóf feril minn í orkugeiranum hefur margt tekið breytingum þar, en breytingarnar eru hægfara. Almenningur er ekki alveg að fylgja okkur en markmiðið á að vera að fleiri fylgi og skilji. Þess vegna vil ég sjá fleiri orkufyrirtæki vera markvissari í því hvernig þau eiga virkt samtal við hagsmunaaðila.

Höfundur er eigandi brandr vörumerkjastofu og dósent í Háskóla Íslands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×