Handbolti

„Norðmenn létu eins og þeir væru rokkstjörnur en á þeim tíma voru þeir ekkert sérstakir“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Róbert Gunnarsson í leik Íslands og Noregs á EM 2010.
Róbert Gunnarsson í leik Íslands og Noregs á EM 2010. epa/GEORG HOCHMUTH

Í EM-hlaðvarpi Seinni bylgjunnar rifjuðu þeir Ásgeir Örn Hallgrímsson og Róbert Gunnarsson upp hvernig var að spila við norska landsliðið á sínum tíma.

Íslendingar og Norðmenn eigast við í leiknum um 5. sætið á EM í handbolta klukkan 14:30 í dag. Ásgeir og Róbert léku ófáa leikina gegn Noregi á sínum landsliðsferli.

„Þeir voru ekki skemmtilegir og með rosa leiðinlegt lið þegar við vorum að spila. Kjetil Strand var verstur af þeim öllum,“ sagði Ásgeir og vísaði þar til mannsins sem skoraði nítján mörk gegn Íslandi á EM 2006.

„Fyrir utan nokkur Balkanlið er þetta lið sem ég hef aldrei þolað,“ sagði Róbert.

Í þá daga voru Norðmenn ekki með nálægt því jafn sterkt lið og nú þótt þeir hafi jafnan spilað sig stóra.

„Þeir mættu alltaf á hótelið, með sér morgunmat fyrir þjálfarann. Þeir létu eins og þeir væru rokkstjörnur en á þeim tíma voru þeir ekkert sérstakir,“ sagði Ásgeir.

Hlusta má á EM-hlaðvarp Seinni bylgjunnar í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×