Heimsmarkmiðin

Íslenskur stuðningur við opnun skóla í Úganda

Heimsljós
Gunnisal

Utanríkisráðuneytið hefur ákveðið að verja fjörutíu milljónum króna til að styðja við menntun barna í Úganda. Hvergi í heiminum hafa skólar lengur verið lokaðir en bæði börn og unglingar hafa ekki setið á skólabekk um tveggja ára skeið, frá því heimsfaraldur kórónuveirunnar hófst í mars 2020. Kennsla hófst víða á ný um miðjan þennan mánuð.

Menntamálaráðuneyti Úganda gerir kröfu um að skólar setji upp viðunandi hreinlætisaðstöðu fyrir nemendur og kennara í kjölfar opnunarinnar.

Til að aðstoða skóla við hefja kennslu hefur Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) áform um að leggja til hreinlætisvörur til skólanna í því skyni að uppfylla kröfur stjórnvalda og sporna gegn útbreiðslu COVID-19. Utanríkisráðuneytið hefur ákveðið, gegnum sendiráð Íslands í Kampala, að styðja við framtak UNICEF eftir að beiðni barst frá stofnuninni um að taka þátt í þessu stóra verkefni.

Grunn- og framhaldsskólar í Úganda eru tæplega fjórtán þúsund talsins, nemendur um fimmtán milljónir. Að mati sendiráðsins í Kampala er stuðningur við opnun skóla í landinu afar mikilvægt verkefni og vilji til þess að koma til móts við hreinlætiskröfur stjórnvalda.


Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×