Handbolti

Segja misskilning hafa valdið því að Danir reyndu ekki að skora

Sindri Sverrisson skrifar
Jacob Holm skoraði 9 mörk fyrir Danmörku í gærkvöld en virtist ekki alveg með á nótunum í lok fyrri hálfleiks.
Jacob Holm skoraði 9 mörk fyrir Danmörku í gærkvöld en virtist ekki alveg með á nótunum í lok fyrri hálfleiks. Getty/Sanjin Strukic

Afar óvenjulegt atvik varð í lok fyrri hálfleiks hjá Danmörku og Frakklandi á EM í handbolta í gærkvöld þegar Danir slepptu því að reyna að nýta síðustu sókn sína.

Danmörk var 17-12 yfir í hálfleik en reyndi ekki að skora úr síðustu sókn sinni fyrir hléið. Jacob Holm stóð bara með boltann á meðan að sekúndurnar liðu, og allt í einu gall flautan í höllinni.

Á endanum tapaði Danmörk svo leiknum með einu marki, 30-29, sem jafnframt hafði í för með sér að Ísland komst ekki í undanúrslitin heldur spilar við Noreg um 5. sæti. Danir mæta Spánverjum í undanúrslitum og Frakkar mæta Svíum.

Að sögn Holm var um misskilning að ræða sem réði því að danska liðið reyndi ekki að skora á þeim heilu 20 sekúndum sem Danir höfðu í lok fyrri hálfleiks.

„Það var búið að kalla hvaða kerfi ætti að taka og ég beið eftir því að það færi í gang. Það gerðist ekki og þannig rann þetta svolítið út í sandinn. Við vissum ekki hvert við ættum að hlaupa,“ sagði Holm.

„Þetta má ekki gerast í lok leikja en við vorum fimm mörkum yfir og ég held að það hafi spilað inn í að við gátum brosað svolítið yfir því í staðinn,“ sagði Holm.

„Hélt að við værum að fara að setja eitthvað í gang“

Hægri hornamaðurinn Lasse Svan vissi hins vegar alveg hvað klukkan sló en náði ekki að vekja félaga sína úr rotinu:

„Við töpuðum tímaskyninu, held ég. Ég sá að það voru tíu sekúndur eftir og hélt að við værum að fara að setja eitthvað í gang. Ég gleymdi að kalla eitthvað því ég var viss um að það væri einhver með stjórn á þessu. Þegar það voru bara fimm sekúndur eftir fattaði ég að þannig væri það kannski ekki,“ sagði Svan.

Danir héldu þó forystunni í leiknum langt fram í seinni hálfleik en Frakkar komust fyrst yfir þegar ein og hálf mínúta var til leiksloka. Fyrir leik var þó ljóst að Danmörk kæmist í undanúrslit þrátt fyrir tap.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.